Í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenzka biblíufélags á Íslandi langar mig að miðla með ykkur hversu mikils virði Biblían er mér. Biblían er orð Guðs, grundvöllur trúar allra kristinna manna. Hún gefur okkur allt sem við þörfnumst til að rækta samfélag okkar við lifandi Drottinn Guð og son hans Jesú Krist. Orð Guðs er lifandi vatnslind sem svalar þorstasálu og anda okkar. Orð Guðs snertir vilja okkar og fyllir okkur krafti til að þjóna Guði. Að lesa orð Guðs á hverjum degi gefur okkur huggun, hvatningu og uppörvun.
Í öðru Tímóteusarbréfi 3:16–17 segir: „Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti, til þess að sá,sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.“
Sérhver ritning er innblásin af Guði sjálfum: Guð sjálfur gefur okkur siðferðisboðorð og meginreglur í gegnum orð sitt. Hann opinberar þar vilja sinn og áætlun fyrir mannkynið, sem felst meðal annars í að gjöra nafn hans dýrlegt, að hann er fullur náðar og miskunnar í kærleika sínum til allra manna.
Nytsöm til fræðslu: Við lærum um siðferðisboðorð og meginreglur hans. Guð opinberar okkur eðli og vilja sinn þegar við lesum og meðtökum orð hans. Það er vilji hans að við vöxum í honum eins og Páll talaði til Efesusmanna: „vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið Kristur“. (Efesusbr. 3:15).
Til umvöndunar: Með því að lesa orð Guðs daglega komumst við ekki hjá því að orð hans upplýsi sálsjónir okkar. Orð Guðs ávítar okkur og bendir okkur á það sem rangt er í lífum okkar.
Til leiðréttingar: Orð Guðs talar til okkar þegar við lesum það, bendir okkur á það sem við þurfum að láta af í skiptum fyrir meira af honum.
Til menntunar í réttlæti: Með því að lesa orð Guðs eignumst við þekkingu á Guði sjálfum — orðið umvandar, leiðréttir og menntar okkur í réttlæti. Orð Guðs skilur okkur ekki eftir í vonleysi heldur leiðir okkur inn í réttlæti Guðs að hann fyrirgefur, er fullur elsku, kærleika, hann er náðaríkur og miskunsamur lifandi Guð.
Sá sem tilheyrir Guði: Hann hefur kallað okkur, hann er frelsari okkar og við erum frátekin fyrir hann, erum þjónar hans.
Sé albúinn í andlegt stríð okkar sem við erum í daglega.
Hæfur gjör fyrir orð Guðssem gjörir okkur hæf, mannlega séð erum við
ekki hæf en fyrir það orð Guðs sem við meðtökum og varðveitum þannig erum við hæf til sérhvers góðs verks, að vaxa í Kristi, lifa í honum, vera lærisveinn Drottins, fylgja honum og þjóna honum, að vera eitt með honum um alla eilífð.
Lesandi góður, ég vil hvetja þig til að lesa orð Guðs á hverjum degi.
Biblían er bókin sem lifir með þér um eilífð.
Magnús Gunnarsson
Prestur Betaníu.