Í rúm fimmtíu ár hef ég notið þess að hafa Guðsorð mér við hönd. Ég man þegar ég eignaðist fyrst Nýja testamenti en það var þegar Gídeonmenn komu í Austurbæjarskólann og gáfu öllum 12 ára börnum þessa góðu bók. Ég fór fljótlega að lesa í henni og fann að hún hafði leyndardóm að geyma og gaf mér vegvísi út í lífið. Það kom mér á óvart að mikil áhersla var lögð á kærleikann og að við ættum að elska óvin okkar. Þetta fannst mér algjörlega óhugsandi en komst að því þegar ég varð fyrir einelti, sem hét nú stríðni í þá daga, að eina leiðin til að komast í gegnum það var að leita í Guðsorðið og fá leiðsögn. Hún varð mér fljótt mjög góð handbók því ég fann svörin og hvatninguna. Af veikum mætti reyndi ég að tileinka mér það sem hún hafði fram að færa og í ljós kom að það virkaði. Þá fór ég að lesa meira og drakk í mig orð Guðs sem hefur reynst mér notadrjúgt og heilnæmt fram á þennan dag.
Í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags, sem hefur haft með höndum þýðingu og útgáfu á biblíunni og ritum hennar, vil ég hvetja þig til að kynna þér sjálfur hvað þessi merka bók hefur fram að færa. Það er með þessa bók sem og aðrar að hún les sig ekki sjálf. Mér finnst svo margir dæma innihald hennar eftir umsögn annarra án þess að kynna sér af eigin raun hvað hún hefur fram að færa.
Hélt að það væri fíkniefni
Eitt sinn í fyrra starfi mínu tók ég þátt í að loka þekktum fíkniefnasölustað. Þegar við vorum að störfum á vettvangi kom ungur maður þar að og kom grunur upp um að viðkomandi væri jafnvel að bera fíkniefni á staðinn. Ákvað ég að ræða við hann og bar upp grunsemdir mínar. Bauð hann mér að leita á sér ef ég teldi að hann væri í þeim erindagjörðum. Ekki hafði ég leitað lengi er ég fann fyrir pakka í jakkavasa og taldi að nú væru grunsemdir mínar staðfestar en þegar ég hugðist sækja „pakkann“ kom allt annað í ljós. Ég hálf hrökk við því ég hélt á Nýja testamenti bláu að lit sem var gjöf frá Gídeonfélaginu. Ég átti ekki von á þessu satt best að segja og viðkomandi tók eftir því. Ég sagði við hann að það myndi gera honum gott að lesa þessa bók og þá svaraði hann mér: „Veistu nema ég sé farinn að gera það?“ Hann var þá kominn í þeim erindagjörðum að segja félögum sínum hverju hann hafði kynnst sem hefði breytt lífi hans.
„Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.“
Sálmur 119.9.
Ég hvet þig, lesandi góður, til að kynna þér lifandi orð Guðs því ég hef aldrei orðið vitni að því að það hafi gert einhverjum illt, nei, miklu frekar mjög gott.
Geir Jón Þórisson, fyrrverandi yfirlögregluþjónn.