Mánudaginn 16. nóvember verður haldin málstofa í Hallgrímskirkju kl. 12:10 um Viðeyjarbiblíu en hún kom út árið 1841. Þá verður Viðeyjarbiblía formlega gerð aðgengileg á heimasíðu Biblíufélagsins. Þá er hægt að nálgast fjórar útgáfur á heimasíðunni, Guðbrandsbiblíu frá 1584, Viðeyjarbiblíu frá 1841, Biblíuna 1981 og Biblíu 21. aldarinnar.
Jón Hjörleifur Stefánsson, 34 ára, guðfræðingur, hefur sett upp Viðeyjarbiblíu á stafrænt form en hann setti einnig upp Guðbrandsbiblíu fyrir nokkrum árum síðan. En hvaðan kemur þessi áhugi á gömlum útgáfum Biblíunnar?

„Ég er með trúarbakgrunn í fjölskyldunni því afi minn og alnafni var prestur hjá Sjöunda-dags aðventistum.  Á menntaskólaárunum fór ég að velta fyrir mér djúpu spurningum lífsins og fann líka fyrir tómi og sekt í lífi mínu og nokkru seinna eða árið 2002 ákvað ég að fylgja Kristi. Ári áður hafði ég útskrifast frá Menntaskólanum á Akureyri. Í kjölfarið fór ég að sækja kirkju, lesa meira í Biblíunni og eftir eitt ár í Háskóla Íslands ákvað ég að fara á biblíuskóla í Noregi til að læra meir um trúna. Eftir þann tíma vann ég í nokkur ár fyrir Kirkju Sjöunda-dags aðventista á Íslandi sem „Bible worker“ eða „biblíustarfsmaður“, ég hélt ásamt öðrum námskeið fyrir almenning um heilsufarsleg og trúarleg málefni auk þess við buðum upp á persónusniðna biblíufræðslu. Síðan vann ég í tvö ár sem stuðningsfulltrúi hjá Suðurhlíðarskóla í Reykjavík og eftir það fór ég alfarið að læra guðfræði. Ég var búinn að taka námskeið við guðfræðideild Háskólans en fór svo til Andrews University í Berrien Springs, Michigan haustið 2009 og lauk meistaragráðu þar 2013. Eftir það sótti ég um inngöngu í doktorsnám og er núna við nám í Vrije Universiteit Amsterdam en ég hóf nám þar síðastliðið haust“

„Áhuginn á íslenskum Biblíuþýðingum kom á sama tíma og áhugi minn á kristinni trú. Ég hef alltaf haft áhuga á tungumálum almennt og þegar ég fór að lesa Biblíuna tók ég eftir því að eldri íslenskar biblíuþýðingar voru nær ófáanlegar nema á fornbókasölum eða niðri á handritadeild Bókhlöðunnar. Sú hugmynd og það markmið mótaðist hjá mér veturinn 2001-2002 að gera allar íslenskar frumþýðingar á Biblíunni (þ.e. ekki allar útgáfurnar heldur þýðingarnar úr frummálunum) aðgengilegar á íslensku. Ég byrjaði að vélrita Guðbrandsbiblíu í hjáverkum um 2007. Á spjalli við Jón Pálsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra hjá HÍB, árið 2008 fórum við að tala um biblíuþýðingar, hvað það væri frábært ef þessar gömlu þýðingar væru aðgengilegar almenningi. Orðabók Háskólans leist líka vel á þessa hugmynd en tengill okkar þar var Guðrún Kvaran. Reynt var að leita eftir styrkjum til að greiða fyrir þá vinnu að vélrita og setja upp á stafrænt form Guðbrandsbiblíu og það gekk eftir. Í fyrra hóf ég síðan vinnu að setja upp Viðeyjarbiblíu og fékk til þess styrk frá Hinu íslenska biblíufélagi. Það væri frábært ef að allar heildarútgáfur af Biblíunni væru til á stafrænu formi. Næst væri hugsanlegt að setja inn á heimasíðuna Stórn og útgáfuna frá 1912 aðgengilega.

„Verkið er ekki fullkomið því ég er ekki íslenskufræðingur. Þegar ég vélritaði Guðbrand yfirfærði ég hann á nútíma stafsetningu þar sem það var engin samræmd stafsetning á hans tíma og greinarmerki voru mjög ólík okkar. Þetta þýddi að ég þurfti að taka ákvarðanir um hvar átti að skipta setningum. Og núna þegar ég vélritaði Viðeyjarbiblíu þá sá ég að þekking mín á íslenskri málsögu er svo takmörkuð að ég vissi ekki hvort ég ætti að stafsetja biblíunöfn með breiðum eða grönnum sérhljóða því að í textanum er oft enginn stafsetningarmunur á þessu svo ég tók þá ákvörðun að nöfnin myndu halda sér eins og þau eru skrifuð. Ég tel þetta vera mikinn fjársjóð fyrir íslenska þjóð að hafa þessar útgáfur aðgengilegar“

„Verkefnið að gera eldri íslenskar heildarútgáfur Biblíunnar stafrænt aðgengilegar með því að vélrita þær og færa stafsetninguna til nútímahorft er áhugavert verkefni og gaman væri ef það gæti orðið að veruleika. Til þess þarf fjársterka aðila eða safnanir til verksins en það hlýtur að vera eftirsóknarvert verkefni“

Hvað ætli það taki langan tíma að vélrita upp eina Biblíuþýðingu og færa um leið stafsetningu hennar til nútímahorfs?

„Vinnan er um 1000 klukkustundir og síðan þarf að prófarkalesa textann og setja hann upp á vefinn. Jóhann Grétarsson, vefstjóri HÍB hefur haldið utan um uppsetningu textans á heimasíðu félagsins“

Málstofan um Viðeyjarbiblíu er öllum opin.