Laugardaginn 17. október kl. 20:30 verða tónleikar í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu en þeir eru haldnir í tilefni af 200 ára afmæli Biblíufélagsins. Undirbúningur fyrir tónleikana er í fullum gangi. Margt af því tónlistarfólki sem kemur þarna fram hefur samið lög við texta úr Biblíunni eða við ljóð sem ort hafa verið í tilefni afmælisársins. Helga Vilborg Sigurjónsdóttir mun flytja tvö lög á tónleikunum.
„Bæði lögin tengjast tímanum sem ég dvaldi í Eþíópíu og því hvernig Guð verndaði og varðveitti mig þar. Þegar ég var 19 ára fór ég til Eþíópíu sem sjálfboðaliði í eitt ár og upplifði mjög margt, bæði ævintýralegt og skemmtilegt og líka erfitt og krefjandi. Allt árið kom sálmur 91 til mín aftur og aftur og þessi orð „Óttast þú eigi“ og var eins og rauður þráður í gegnum þennan tíma. Sálmur 121 er okkur fjölskyldunni mjög kær þar sem hann minnir á fjöllin í kringum Voító dalinn í Eþíópíu þar sem við bjuggum í 2 ár. Þetta var yndislegur og þroskandi tími en um leið krefjandi og á köflum mjög erfiður. Þá var gott að geta horft upp til fjallanna og minnt sig á að sami Drottinn og skapaði þessi fjöll sem umlykja dalinn var þarna með okkur og umlék okkur á bak og brjóst í hvaða aðstæðum sem kunnu að koma upp“
Biblíufélagið hvetur fólk til að mæta á tónleikana. Aðgangur ókeypis. Verið innilega velkomin.