Næsta laugardagskvöld 17. október kl. 20:30, verða tónleikar í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu en þeir eru haldnir í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags. Margt listafólk kemur fram og frumflutt verða ný lög. Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson er einn af þeim sem mun koma fram á tónleikunum. Hann hlakkar til að spila á tónleikunum:

„Ég hlakka mikið til að spila á tónleikunum á laugardaginn ásamt hljómsveitinni Biblíusugunum, sem stofnuð var af þessu tilefni. Hana skipa, auk mín, Emil Hreiðar Björnsson gítarleikari, Hannes Pétursson trommuleikari, Henning Emil Magnússon, sem spilar á bassa og Matthías Baldursson á hljómborð. Við munum spila þrjú lög eftir mig; Perluna, með texta eftir óþekktan höfund sem yrkir út frá dæmisögu Jesú um perluna dýru í Mattheusarguðspjalli, Brennandi runni, sem er um köllun Móse og að lokum Samson,við ljóð Valdimars Briem þar sem saga Samsons og Dalílu er rakin. Lagið um Samson er reyndar nokkurs konar mini söngleikur þar sem ég syng sem sögumaður en hlutverk Samsons og Dalílu syngja Gísli Friðriksson og Bylgja Dís Gunnarsdóttir“

Ókeypis aðgangur. Verið hjartanlega velkomin!