Fyrir mörgum árum heyrði ég dæmisögu sem ég segi stundum börnum. Sagan fjallar um stóran peningaskáp fullan af gimsteinum, gulli og peningum, sem til stóð að flytja með lest yfir sléttuna miklu í villta vestrinu. Þegar lestin var komin vel áleiðis stöðvaði ræningjaflokkur lestina, en flokkurinn hafði frétt af hinum verðmæta farmi. Ræningjarnir reyndu hvað þeir gátu við að opna skápinn, en það skipti engu máli hvað þeir hömuðust á hurðinni, aldrei opnuðust dyrnar. Þeir ákváðu að hafa með sér skápinn og drógu hann með sér nokkra hríð. Þá vildi ekki betur til en svo að skápurinn rann til í fjallshlíð og ofan í vatnsmikla á. Ræningjarnir gáfust upp og héldu áfram í leit að öðrum ránsfeng en skápurinn lá í árgilinu í nokkur ár. Þá gerðist það að indíánar komu eftir árfarveginum og rákust á skápinn. Indíánunum þótti þetta mikil furðusmíð og reyndu að dælda gripinn með stríðsöxum sínum og örvum, en skápurinn haggaðist ekki. Skömmu síðar komu kúrekar að gilbarminum með nautahjarðir sínar. Nautin bauluðu og kúrekarnir reyndu að skjóta gat á skápinn, en skápurinn stóð af sér þessa atlögu sem aðrar. Mörgum árum síðar gekk lítil stúlka þessa leið og sá skápinn. Þegar hún klappaði undir hann og þreifaði fyrir sér fann hún lítinn lykil sem festur var við botninnn. Með lyklinum opnaði hún skápinn og gullið og gimsteinarnir geisluðu í sólskininu.
Mér finnst gaman að segja þessa sögu og krakkarnir hafa gaman af að heyra af kúrekum, indíánum og ræningjum. Ég legg söguna gjarnan út á þann hátt að Biblían sé eins og skápur sem er fullur af dýrgripum; sögum, ljóðum, lögum, sálmum, opinberunum, bréfum, sagnaþáttum og lagabókum frá horfinni tíð. Skápurinn sem er Biblían geymir hugarheim, ekki aðeins Hebreanna sem rituðu hin fornu rit Gamla testamentisins sem síðan voru endurtúlkuð í hinu nýja, heldur líka hugarheim fólks frá liðnum öldum sem hefur túlkað þennan hugarheim og sótt í hann gull og gimsteina. Ekki allt í þessum sjóði er jafnfallegt og sumt hefur ekki staðist tímans tönn. En samt hefur hann að geyma dýrgripi sem fólk á liðnum öldum, formæður okkar og forfeður sóttu traust í og sumir fórnuðu lífinu fyrir hann. Hann geymir trúararf og menningararf. Ein af ástæðum þess að við tölum enn íslensku er sú hversu snemma Íslendingar fengu Biblíu í sínu móðurmáli og heilög ritning með sínu varðveislugildi er þannig einn af hinum ómetanlegu fjársjóðum íslenskunnar.
Það getur verið erfitt að sækja í þennan sjóð. Ég játa það að stundum hefur mér verið innanbrjósts eins og ræningjunum, indíánunum og kúrekunum, fundið bara hylkið og ekki komist í sjóðinn. Á öðrum stundum er mér farið eins og barninu sem fann sér tíma og elju til að klappa utan skápinn og finna lykilinn. Þessi lykill er mér lykill trúar og bænar, lykillinn Jesús Kristur. Hann opnar mér sjóðina stóru þegar ég síst á þess von og þegar leið mín liggur um óþekkta árfarvegi.
Á þessu ári fagnar Hið Íslenska Biblíufélag 200 ára afmæli sínu, en þessi félagsskapur er elsta félag á Íslandi. Í 200 ár hefur élagið verið lestin sem ber skápinn til Íslendinga ásamt því sem það hefur sinnt samstarfi við önnur Biblíufélög á alþjóðavettvangi og efnt til safnana til að fjármagna Biblíuþýðingar á þjóðtungum víða um heim. Ég óska félaginu hjartanlega til hamingju með afmælið og þakka af hjarta fyrir alla þá sjóði og gleði sem það hefur borið mér á undanförnum áratugum.
Dr. Sigríður Guðmarsdóttir