Biblían er um margt merkileg bók. Hún hefur verið þýdd á fleiri tungumál en nokkur önnur bók og gefin út í stærri upplögum en aðrar bækur. Þá er hún einhver mest lesna og rannsakaða bók veraldar. Hún hefur haft ómæld áhrif, bæði trúarleg og menningarleg. Í tilefni af 200 ára afmæli Biblíufélagsins á þessu ári er gott tilefni til að staldra við og velta fyrir sér áhrifum og gildi Biblíunnar. Eitt af því sem gerir hana áhugaverða er að í henni endurspeglast allt litróf mannlegs lífs. Af þeim sökum hefur hún oft talað inn í aðstæður fólks, bæði þegar allt leikur í lyndi og á tímum áfalla og hörmunga. Margir sem lesa Biblíuna leitast við að skoða og túlka líf sitt og tilvist í ljósi þeirra sagna sem þar er að finna. Kristið fólk mætir þannig í textum Biblíunnar orði Guðs sem talar inn aðstæður þess. Fornir textar verða lifandi á ný og hafa eitthvað að segja í samtímanum. Það getur bæði átt við um stöðu einstaklingsins gagnvart Guði og náunganum. Þegar Jesús Kristur var spurður að því hvaða boðorð væri mikilvægast tiltók hann tvöfalda kærleiksboðið, sem felur einmitt í sér þessar tvær hliðar, þ.e. afstöðuna til Guðs og náungans. Þar setti hann kærleikann í brennidepil. Þegar hann dró saman kjarnann í afstöðu okkar til annarra setti hann fram gullnu regluna um að allt sem við viljum að aðrir geri okkur skulum við gera þeim. Í spámannatextum Gamla testamentisins er meðal annars talað um félagslegt réttlæti og stöðu þeirra sem standa höllum fæti í samfélaginu, nokkuð sem við erum enn að fást við og ræða. Þannig mætti áfram telja.
Þekking á biblíutextum hefur án efa farið minnkandi í okkar samfélagi á undanförnum árum. Fyrir því eru ýmsar ástæður, bæði hefur dregið úr biblíusögukennslu í skólum með aukinni fræðslu um öll helstu trúarbrögð heims og jafnframt virðist fátíðara börn kynnist sögum Biblíunnar á heimilum sínum. Ég minnist þess að þegar ég ólst upp gat ég meðal annars lifað mig inn í sögur Biblíunnar í gegnum myndabiblíu sem til var á heimilinu. Ég hef búið að því allar götur síðan, bæði í trúarlegu tilliti en líka þegar kemur að læsi á áhrif Biblíunnar í menningunni. Þau eru óteljandi bókmenntaverkin sem vísa með beinum eða óbeinum hætti til texta Biblíunnar, sama gildir um myndlist, tónlist og kvikmyndir. Það auðgar upplifun af slíkum verkum að geta skírskotað til þeirra biblíutexta sem vísað er til. Af þeim sökum er ekki óeðlilegt að tiltekin biblíuþekking sé hluti af trúarbragðafræði skólanna svo að nemendur verði læsir á þennan þátt menningararfsins. Hitt er jafnljóst að þegar kemur að þætti Biblíunnar í trúarlegu uppeldi þá er það hlutverk heimila, kirkju og trúfélaga að sinna því. Minni þekking á Biblíunni felur í sér áskorun til kristinna foreldra, kirkjunnar og annarra kristinna trúfélaga að leggja rækt við biblíufræðslu. Er ekki lag á 200 ára afmælisári Biblíufélagsins að huga að því?

Gunnar J. Gunnarsson
Höfundur er dósent í trúarbragðafræðslu við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.