„Biblían er sérstök bók. Það er heillandi að lesa í henni – það er eins og þunn blöðin viti að þau hafi að geyma innihaldsríkan texta. Biblían er óendanleg bók. Þegar ég les skáldsögu þá lýkur henni, hún á sitt upphaf og endi. En Biblían er bók sem ég verð aldrei búin með, henni lýkur ekki og í mismunandi kringumstæðum lífsins talar hún til mín“. Þetta segir danski menningar- og kirkjumálaráðherrann, Marianne Jelved.
Marianne er þekktur stjórnmálamaður í Danmörku. Hún hefur setið á þingi fyrir vinstri flokkinn, Radikale Venstre, frá 1987 en starfaði áður sem grunnskólakennari. Í dag er hún menningar- og kirkjumálaráðherra og segist vera „Þjónn Þjóðkirkjunnar“.
„Heimurinn breytist stöðugt. Ég hefði á einhverjum tíma aldrei trúað að það gæti orðið borgarastyrjöld í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina. Það gerðist í fyrrum Júgoslavíu. Ég hefði aldrei getað ímyndað mér að það gæti verið til eins mikil illska eins og birtist hjá nasistum. Heimurinn er viðkvæmur og brothættur“.
En það má berjast gegn óréttlæti og það hefur Marianne viljað gera. Í því sambandi minnir hún sjálfa sig á orðin í I Korintubréfi 13. kafla þar sem fjallað er um trú, von og kærleika, en þeirra er kærleikurinn mestur.
„Hann er svo fallegur þessi texti Biblíunnar. Kærleikurinn er mestur, það getum við endurtekið innra með okkur, aftur og aftur. Sú hugsun er frelsandi þegar við horfum á og upplifum illskuna sem heimurinn er merktur af og fólk býr við. Ég reyni að sjá hlutina með augum Jesú. Og það hef ég reynt að hafa að leiðarljósi frá barnæsku. Það þýðir einfaldlega að hjálpa náunganum í neyð, ekki að horfa framhjá vandamálunum, heldur að aðstoða eftir fremsta megni“.
Ráðherrann er inntur eftir því hvort einhverjir textar séu í Biblíunni sem erfitt sé að samsama sig við. Ráðherrann telur svo ekki vera.
„Ég hef alltaf verið á þeirri skoðun að ég þurfi ekki að skilja allt sem stendur í Biblíunni. Ég get spurt sjálfa mig hvort Jesús hafi gengið á vatninu. Ég hef ákveðið að trúa því vegna þess að það stendur í Biblíunni. Ég þarf ekki að skilja allt, ég má trúa en ég þarf ekki endilega að skilja það til fullnustu“. Marianne bendir á að sá leyndardómur sem kraftaverk Jesú eru, opinberi það að Jesús sé sannur Guð og sannur maður.