Í gær var haldin afmælishátíð Hins íslenska biblíufélags í Hallgrímskirkju og margt fólk fagnaði saman 200 ára afmæli félagsins. Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá í tali og tónum. Öllum sem þangað komu er þakkað fyrir komuna.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ávarpaði gesti á hátíðinni og hann sagði meðal annars:
„Það gleymist oft í orðræðu okkar tíma, þegar krafist er að kristnum textum sé ýtt til hliðar í skólum landsins og við uppeldi æskunnar, að menning og vegferð Íslendinga frá landnámstíð til þessarar nýju aldar, rösk þúsund ár í sögu þjóðar, verða ekki skilin til hlítar án þekkingar á kristnum fræðum; frásagnir Biblíunnar, sess og þróun kirkjunnar, störf presta í byggðum landsins séu öllum kunn og að verðleikum metin; að viðurkennt sé af heilum huga að hin helga bók og trúarskáldskapur Íslendinga sjálfra eru burðarstoðir í sjálfsvitund þjóðarinnar, í samfelldri sögu okkar og í nýsköpun bókmennta, lista og samfélags á okkar tímum.“
Þá þakkaði hann öllum þeim sem standa að Biblíufélaginu fyrir sín störf í þágu félagsins.