Sr. Þórhallur Heimisson hefur birt á Pressunni stuttar hugleiðingar út frá tíu völdum ritningarstöðum. Hægt er að lesa þessa texta á slóðinni:
http://www.pressan.is/pressupennar/Lesa_Thorhall_Heimisson/tiundi-topp-tiu-bibliutextinn–um-sigur-hins-goda
Hér birtum við tíunda ritningartextann og hugleiðingu sr. Þórhalls.

Tíundi “Topp tíu” Biblíutextinn – Um sigur hins góða
Nú er úr vöndu að ráða,- komið að síðasta textanum á “Topp tíu” textalistanum mínum hér á Pressunni.

Vandinn sem ég á við að ráða er sem sagt sá, að það eru svo margir fleiri textar sem eru í uppáhaldi hjá mér úr Biblíunni en þeir sem ég hef birt hér.

Ef ég á að segja alveg eins og er, þá eru allir textar Biblíunnar í miklu uppáhaldi hjá mér.

Það má nefnilega finna texta fyrir hvert tilfelli á spjöldum hennar.

Og textarnir búa líka yfir þeim eiginleika að “finna” mig þegar þörf er á.

Þeir koma til mín, eins og gamlir vinir, spekingar, og hvísla að mér í annríki dagsins.

Og þannig er Biblían best. Eins og gamall vinur.

Þess vegna les ég hana á hverjum degi. Og velti textum hennar fyrir mér. Og gleðst yfir því að eiga þennann góða vin að. Alla æfidaga mina.

En……… nú er sem sagt komið að síðasta textanum sem ég ætla að setja hér á uppáhalds listann minn yfir “Topp tíu” texta Biblíunnar á Pressunni.

Þennan texta “fékk” ég reyndar frá vini mínum, sem benti mér á hann einhverntíman þegar ég var að gefast upp á öllum órétti heimsins – og hann rifjast oft upp fyrir mér þegar ég horfi á illskuna og óréttinn í kringum mig.
Textinn er eftir Pál postula og hann er tær í einfaldleik sínum. Hann bendir okkur á að besta leiðin í lífinu er alltaf fólgin í því að sýna æðruleysi, láta ekki bugast – en umfram allt felst hún í því að sigra hið illa með hinu góða.

“Lát ekki hið Vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu” segir Páll í 12. Kafla Rómverjabréfsins.

“Hið Vonda” skrifa ég hér með stórum staf.

Þannig má líka lesa Faðir vorið “…leið oss ekki í freistni, heldur frelsa oss frá Hinum Illa”.

Sem sagt.

Gefumst aldrei upp.

Látum ekki græðgina, myrkrið, mammon, óréttinn, öfundina, lygina og allt þetta yfirbuga okkur.

Treystum Guði.

Látum púðrið ekki vökna.