Á afmælishátíðinni í Hallgrímskirkju voru fluttar árnaðaróskir af hálfu erlendra gesta en það var framkvæmdastjóri norska biblíufélagsins, NBS
Ingeborg Mongstad-Kvammen, framkvæmdastjóri, sem það flutti.
Hér má sjá ávarpið í heild sinni:

Kæra stóra systir, til hamingju með daginn! Ég segi stóra systir þar sem norska biblíufélagið er aðeins 199 ára!
Mér er það heiður fyrir hönd hinnar stóru biblíufélagafjölskyldu að
fá að vera sú sem flytur heillaóskirnar í dag!
Sú fjölskylda er stór sem við erum hluti af. Biblíufélögin starfa í
rösklega 200 löndum og landsvæðum. Og í dag erum við hér sem
fulltrúar Finnlands, Svíþjóðar, Noregs og heimssamtaka okkar, Sameinuðubiblíufélaganna. Við erum hér til þess að fagna því að fjölskyldan okkar hefur gert Biblíuna aðgengilega fyrir alla hér á Íslandi
í 200 ár. En það er ennþá mikilvægara að huga að sóknarfærum
framtíðarinnar en að fagna fortíðinni. Hvernig getum við, biblíufélagafjölskyldan, gert kirkjurnar þannig úr garði eins vel og kostur er að þær geti miðlað Orði Guðs? Og: Hvernig getum við í biblíufélagafjölskyldunni gert gæfumuninn á heimsvísu?
Er við fögnum 200 ára afmælinu þessa helgi, þá skuluð þið vita að
þið eruð ekki þau einu sem fagna. Það eru heldur ekki bara við fimm
frá útlöndum, sem samgleðjumst ykkur. Nei, þau öll sem eru hluti af
sýn Sameinuðu biblíufélaganna um „Biblíuna fyrir alla“ (The Bible for
everyone) — sem sagt allir í þessum 200 löndum og landsvæðum —
samfagna okkur í reynd! Er það ekki frábært?
Í Biblíufélaginu erum við aldrei ein á ferð! Þegar við látum til okkar
taka staðbundið, gerist það einnig í meginatriðum á heimsvísu. Og
þá þarf að axla sameiginlega ábyrgð. Við erum nefnilega „hnattbundin“
(glokal). Við erum hnattræn hreyfing, nátengd hinu staðbundna.
Eða staðbundin hreyfing, nátengd hinu hnattræna. Þess
vegna tel ég það afar mikilvægt núna, er við fögnum 200 ára biblíustarfi
á Íslandi, að beina sjónum okkar fram á veginn. Hver er sú
hnattræna áskorun sem við tökumst á við í sameiningu?
Í heiminum eru töluð um það bil 7.000 tungumál. Til eru rösklega
4.000 tungumál sem enginn hluti Biblíunnar hefur verið þýddur á.
Biblíuþýðing á heimsvísu er af þeim sökum megináskorun okkar
tíma. Það er tímafrekt. Það krefst mikilla hæfileika. Það kostar fúlgur
fjár. Og tvímælalaust er þörf á fjárhagslegum stuðningi okkar.
Önnur hnattræn áskorun á þessari stundu er sú, að í fjölmörgum
löndum er gríðarlegur kirkjuvöxtur, samfara litlum kaupmætti. Þetta
fólk, sem hefur nýlega tekið kristni, þarf að læra um trú sína. Og þar skipar Biblían að sjálfsögðu öndvegi. Þar sem við erum á eyju, langar mig til að taka dæmi af annarri eyju: Kúbu. 12 milljónir íbúa.
Mjög lítill kaupmáttur. Hér um bil tvær milljónir manna sækja kirkju að jafnaði. Og það er mikill skortur á Biblíum! Fyrir nokkrum árum spurðum
við kirkjuleiðtogana þar hverjir þyrftu beinlínis á Biblíu að halda þar sem þeir áttu aðeins að uppfylla þarfir hinna trúuðu. Það þurfti eina milljón Biblía! Af þeim sökum hóf biblíufélagafjölskyldan biblíuherferð: Ein milljón Biblía til Kúbu. Núna erum við næstum því hálfnuð. Ég var nýlega á Kúbu og það var gríðarlega áhrifamikið að hitta fólk á aldur við mig (ég er 43 ára) sem hafði verið kristið alla sína ævi en fékk sína fyrstu Biblíu á meðan við vorum þarna. Sjálf á ég ábyggilega 10 Biblíur á skrifstofunni minni einni saman — mismunandi norskar þýðingar og á öðrum ólíkum
tungumálum. Þannig er önnur hnattræna áskorunin í því fólgin að láta trúað fólk í landi eins og Kúbu fá Biblíu á verði sem það getur í raun borgað. Þá þarf að fjármagna Biblíurnar. Og það er þá sem hitt fólkið í biblíufjölskyldunni kemur til skjalanna.
Kæra stóra systir, við tilheyrum stórum systkinahópi. Við tökumst
einnig á við okkar eigin áskoranir. Þær má draga saman með þessum
lykilorðum: Efnahagslegt bolmagn, afhelgun og nýguðleysi. En mér
finnst að við sem trúað fólk, sem kirkjur og sem biblíufélag ættum að
nota 200 ára afmælishátíðina til þess að spyrja sjálf okkur: „Hvernig
getum við gert gæfumuninn á heimsvísu?“ Það er á tveimur meginsviðum, sem við, sem erum frá þessu mikla forréttindasvæði í norðri, getum lagt okkar af mörkum, og það eru biblíuþýðingar á heimsvísu og biblíudreifing á heimsvísu. Verkefni okkar, óháð því hvar við erum í heiminum, felst í því að gera kirkjurnar þannig úr garði að þær miðli Orði Guðs, rétt eins og Páll segir í Rómverjabréfinu, 10. kapítula og 17. versi: „Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.“

Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi