Gabríel verðlaunin eru kvikmyndaverðlaun sem veitt eru norrænum kvikmyndaleikstjórum árlega af Landssambandi sóknanefnda í Danmörku. Sigurvegari þetta árið var leikstjórinn Erik Clausen fyrir kvikmynd sína Mennesker bliver spist en hann leikstýrði og lék aðalhlutverkið í kvikmyndinni.
Gabríel verðlaunin eru verðlaun sem veitt eru til norrænna kvikmyndaleikstjóra fyrir kvikmyndir sem gefa áhorfendum djúpa tilfinningu fyrir trúarlegum og félagslegum gildum. Verðlaunin eru útskorin stytta og peningaupphæð. Um síðustu helgi voru yfir 600 meðlimir í safnaðarnefndum samankomnir til að veita Gabríel verðlaunin.
Kvikmyndin Mennesker bliver spist fjallar um verkfræðinginn Herluf sem er samviskusamur faðir og eiginmaður sem lifir hefðbundnu lífi. Hann tapar minni og gerir skyssur i vinnunni. Einn daginn hverfur hann og þá finnur fjölskyldan hve mikið þau sakna hans og í framhaldi af því taka þau lífs sitt og sjálf sig til skoðunar.
Í rökstuðningi dómnefndar segir meðal annars:

„Eric Clauesen fékk Gabríel verðlaunin 2015 fyrir fallegan og lúmskan húmor sem einkennir myndina Mennesker bliver spist. Kvikmyndin dregur upp skemmtilegar lýsingar á daglegu lífi en síðan er horft undir yfirborð samfélagsins og þar kemur ýmislegt í ljós. Boðskapur kvikmyndarinnar er bjartsýni og orð Páls um kærleikann eru ríkjandi í kvikmyndinni, um kærleikann sem  fellur aldrei úr gildi eins og stendur í fyrra Korintubréfi 13 kafla:  En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur“