Biblíusýning var opnuð í Auðunarstofu á Hólum í Hjaltadal, laugardaginn 1. ágúst sl. Við opnunina flutti vígslubiskup, Solveig Lára Guðmundsdóttir, ávarp. Hjalti Jónsson og Lára Sóley Jóhannsdóttir sungu biblíuljóð og boðið var upp á veitingar.
Á sýningunni má sjá margar Biblíur, meðal annars Guðbrandsbiblíu sem var fyrsta heildarútgáfa Biblíunnar, útgefin á íslensku árið 1584. Þar er einnig ljósprentuð útgáfa Gutenbergsbiblíu frá 1961, sem má kalla einn veglegasta grip prentsögunnar, en hún var upphaflega prentuð í Mainz á árunum 1452-55 og kom þá út í tveimur bindum, Þorláksbiblía en hún er kennd við dótturson Guðbrands biskups sem sat á Hólastóli frá 1627-1656, talin vera mesta stórvirki í íslenskri bókaútgáfu á 17. öld. Steinsbiblía, sem er í nokkru minna broti en fyrri Hólabiblíur, kennd við Stein biskup Jónsson, Biblía Gustavs Vasa sem prentuð var á sænsku 1540-1541 í Uppsölum. Í Danmörku var Biblían fyrst gefin út í heilu lagi fyrir tilstuðlan Kristjáns III og kennd við hann, prentuð í Kaupmannahöfn árið 1550.
Einnig má sjá á sýningunni Hendersonbiblíuna frá 1841, sem kölluð var Grútarbiblía vegna prentvillu í orðinu „harmagrátur“, en þar stóð harmagrútur. Waisenhausbiblía frá 1747 er einnig til sýnis, en hún var prentuð á Hólum.
Margir lögðu leið sína á sýninguna þennan dag en hún verður opin allan ágústmánuð frá kl. 10-18 og vel þess virði að gera sér ferð norður til að sjá þessar merku Biblíur. Flestar Biblíurnar koma úr safni sr. Ragnars Fjalars Lárussonar.
Þessar myndir voru teknar við opnun sýningarinnar.