Inge Lise Petersen: Í upprisunni felst vonin

Sumarþættir Hins danska biblíufélags fjalla um það mikilvægasta í mannlífinu. En hvað er eiginlega mest — trúin, vonin eða kærleikurinn? Lestu svar Inge Lise Pedersen, fyrrverandi formanns Samtaka safnaðaráða, hér.

Thilde Thordal Andersen segir frá / Þorgils Hlynur Þorbergsson þýddi úr dönsku.

Á landsfundinum 2015 gátu heppnir þátttakendur gætt sér á brjóstsykri Biblíufélagsins, ýmist með trú, von og kærleika.

En hverjar þessara þriggja dyggða eru mestar? Að þessu spurði Biblíufélagið fyrrum formann Landssamtaka safnaðaráða, Inge Lise Pedersen, þegar við hittum hana á landsfundinum.

Og Inge Lise Pedersen þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um, hún valdi strax græna brjóstsykursmolann — vonina:

„Í mínum huga er það þannig, að sú trú sem ég á — kristindómurinn — er trú á það, að til sé von. Þegar maður lendir í aðstæðum,  þar sem maður finnur enga jákvæða lausn í eigin mætti, þá segir kristindómurinn að alltaf sé von að finna. Það er hún, sem í mínum huga felst í upprisunni, en hún er í hæsta máta boðun vonar.“

Inge Lise er félagsmálfræðingur og gegndi í mörg ár stöðu formanns Landssamtaka safnaðaráða. Nú hefur hún stigið til hliðar sem formaður, en annast enn þann póst sem berst stjórninni.

Lífið er ekki vonlaust

„Ég átti bróður, sem fórst í flugslysi, þegar hann var 19 ára. Og það var ólýsanlega þungbært. En ég hef ekki fengið mig til þess að trúa því, að einhver tilgangur hefði verið með því að hann dó svo snemma. Þess vegna hefur það þjakað mig mikið, þegar fólk segir við mig: „Hugsaðu þér, hvernig honum var hlíft.“

„Lífið er einmitt ekki vonlaust,“ telur Inge Lise Pedersen.

„Ég neyðist til þess að líta svo á, að bróður mínum var hlíft við vonlausu lífi. Þrátt fyrir það er von mín sú, að lífið sé þess virði að lifa því og að það sé ekki byrði, sem honum var hlíft við.“