Biskup Hróarskeldustiftis, Peter Fischer Møller, telur að Biblían bjóði okkur til hnattræns samfélags, þar sem við erum öll eitt í Kristi. Hér svarar hann nokkrum spurningum um afstöðu sína til Biblíunnar.

Hvernig auðgar Biblían líf þitt?

Ég les vikulega í Biblíunni í tengslum við guðsþjónustur, helgistundir, erindi og svo framvegis. Og ég hef það líka fyrir sið að taka Biblíuna með mér í ferðalög — hún er góður ferðafélagi! Þar að auki koma ekki ósjaldan upp þær kringumstæður, þar sem ég þarf að fletta upp og líta nánar á glósurnar, svo að ég geti komist eitthvað áleiðis til skilnings á biblíuritunum.

Fyrir nokkrum árum skipulagði ég biblíumaraþon innan safnaðanna í Terslev og Ørslev, þar sem ég var prestur. Það var í fyrsta skiptið sem mér gafst kostur á því að lesa Biblíuna algjörlega frá upphafi til enda. Mjög spennandi — og ögrandi!

 Eru einn eða fleiri ritningarstaðir, sem þú heldur sérstaklega upp á?

Af stuttum biblíuversum að hætti „mannakorna“ er fermingarversið, sem ég fékk, í mestum og hefur að geyma dálítið sérstakt:

„Því af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú; og það er ekki yður að þakka, heldur Guðs gjöf.“ (Efesusbréfið, 2. kapítuli, 8. vers)

Mér finnst að Páll einblíni á það spennustig sem ríkir á milli náðar og trúar sem við kristnir menn megum hrærast í og sækja styrk til.

Ég er upptekinn af ábyrgð okkar gagnvart sköpunarverkinu og held í því sambandi mikið upp á sköpunarsögurnar. Mér þykir vænt um jólaguðspjallið — ég kem úr almennri „aðfangadagskristinni“ fjölskyldu — og ég fæ enn innblástur þar sem mér er ögrað af líkingum Jesú. Hugsaðu þér að þora að segja söguna um ótrúa ráðsmanninn!

Hafa komið stundir í lífi þínu, þar sem Biblían hefur veitt þér hjálp?

Ég man ekki eftir sérstökum stundum í lífi mínu, þar sem Biblían hefur fengið alveg sérstaka þýðingu; en ég hef heyrt sögur eins og þegar herpresturinn var með Biblíuna í brjóstvasanum sem tók á sig byssukúlu og beinlínis bjargaði lífi hans. En það var alveg sérstakt að vera með söfnuðunum á Mið-Sjálandi og lesa þessa góðu bók í gegn og klykkja út með hátíðarmálsverði þar sem fólk lagði sitt af mörkum með dásamlegum mat og víni, „með mergjuðum mat og vel geymdu víni“. Svo er sífelld áskorun að setja sig inn í biblíutextana, þegar ég undirbý prédikun.

Eru staðir í Biblíunni sem þú átt erfitt með að skilja eða ert sammála um?

Það eru hlutar í Gamla testamentinu — til dæmis nokkrar sögur í Jósúabókinni, þar sem þær hljóma eins og Guð beinlínis hvetji Ísraelsmenn til þess að flæma upphaflega íbúa Palestínu á brott. Ég á bágt með að lesa þær öðruvísi en sem sögulegar frásagnir og vitnisburð um tíma, þar sem þörf var á guðdómlegri lagaheimild vegna yfirgangs heimamanna. Það er sannarlega leitt til þess að vita, að slíka texta má lesa bókstaflega sem lagaheimild um áframhaldandi kúgun annars fólks.

Ef við trúum því, að rit, sem urðu til fyrir 2000 árum, svari ótvírætt spurningum okkar tíma, getum við auðveldlega gert allt vitlaust í kringum okkur. Til þess að skilja Biblíuna þurfum við því að lesa hana með hliðsjón af sögulegu, menningarlegu og bókmenntalegu samhengi.

Desmond Tutu segir frá:

„Hvíti maðurinn kom til Afríku og sagði: Hér er Biblían, leggið aftur augun og biðjið til Guðs. Og við lögðun augun aftur og báðum til Guðs, og þegar við lukum upp augunum okkar, hafði hvíti maðurinn tekið landið okkar. En við héldum Biblíunni hans eftir!“

Og Tutu brosir, og skilja má, með því að lesa Biblíuna í samhengi, að hann og aðrir kristnir blökkumenn í Suður-Afríku uppgötvuðu, að það var ekki nokkur innistæða fyrir fullyrðingu íbúanna fyrir því, að hvíti maðurinn hefði verið skapaður til þess að ráða yfir hinum svarta. Og sú afstaða er meðal annars runnin undan þeim vitnisburði Biblíunnar, að „hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú.“ Þarna mátti finna kjarkinn og aflið til þess að varpa af sér oki aðskilnaðarstefnunnar.