Biblíusýning á Hólum í tilefni af 200 ára afmæli Biblíufélagsins
Biblíusýning verður opnuð á Hólum í Hjaltadal, í Auðunarstofu, kl. 14 á laugardaginn en þar er eitt merkasta biblíusafn landsins.
Þar verða m.a. Biblíur úr safni séra Ragnars Fjalars Lárussonar en hann var ástríðusafnari og keypti fágætar Biblíur víðs vegar um landið. Á sýningunni verður hægt að skoða meðal annars Guðbrandsbiblíu, Þorláksbiblíu og Steinsbiblíu.
Sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup sagði í viðtali við fréttablaðið að á sýningunni verður meðal annars til sýnis hið hebreska Gamla tesamenti sem Guðbrandur Þorláksson keypti í Þýskalandi og var geymt lengi á Hólum þótt enginn þekkti letrið. Sagan segir að þvottakonur sem voru að þvo við lækinn og hituðu vatnið yfir eldi, datt í hug að setja þessa bók á eldinn, þar sem enginn skildi hvort eð er það sem í henni stæði en þá kom einhver sem varð bókinni til bjargar.
Sýningin verður opnuð klukkan 14 á laugardaginn en verður síðan opin alla daga í ágúst frá 10-18.
Biblíufélagið hvetur fólk að skoða sýninguna.