Prédikun flutt sunnudaginn 12. júlí 2015 í Neskirkju
Hið íslenska Biblíufélag fagnar nú þeim tímamótum að 200 ár eru síðan það var stofnað, þann 10. júlí 1815. Biblíufélagið er elsta starfandi félag landsins og hefur að markmiði að vinna að útgáfu, útbreiðslu og notkun Biblíunnar á Íslandi. Systurfélög þess í Þýskalandi og á norðurlöndum fagna 200 ára afmælum sínum um þessar mundir með sama hætti og hérlendis.
Markmiðið er verðugt og hvatinn að stofnun félaganna er sú sannfæring að útbreiðsla Biblíunnar beri ávöxt í samfélaginu og auðgi trúar- og menningarlíf þjóðarinnar. Sú sannfæring nær langt út fyrir notkun kirkjunnar, en Biblían er grundvöllur kristinnar kirkju í heiminum og sérstök áhersla er lögð á lestur hennar í kirkjudeildum mótmælenda, heldur er lestur Biblíunnar lykilinn að læsi á vestræna menningu og íslenskar bókmenntar.
Það eru því ekki einungis trúarleg rök sem knýja á um þekkingu á Biblíunni, heldur ekki síður menningarleg og siðferðileg rök, sem hafa haft áhrif á grunnstoðir menningar okkar frá Landnámi og til okkar daga. Í mínum huga er Biblían heillandi viðfangsefni af fjölmörgum ástæðum og mig langar í tilefni þessara tímamóta að deila reynslu minni af lestri hennar.
Biblían er í menningu okkar sveipuð óræðri dulúð sem hefur heillað mig frá því að ég var barn en jafnframt voru tilraunir mínar til að lesa hana takmarkaðar, jafnvel á unglingsárum. Upplifun mín við að sitja inngangsnámskeið í Gamla og Nýja testamentinu í guðfræðideild Háskóla Íslands, þegar ég hóf þar nám, var sú að ég var sleginn yfir eigin fáfræði. Þekking mín á Biblíunni takmarkaðist við það sem ég hafði lært í fyrstu bekkjum grunnskóla, enda lýkur kennslu á trúarbrögðum í 8. bekk, og sú þekking sem ég hafði bætt við mig síðan þá einkenndist af neikvæðum alhæfingum sem svo oft birtast í umræðunni.
Það var gæfa okkar guðfræðinema að hafa góða kennara í deildinni. Sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson heitinn lauk upp fyrir okkur heillandi sagnaheimi Gamla testamentisins með ógleymanlegum hætti og prófessor Jón Ma. Ásgeirsson heitinn dró upp fjölbreytileika frumkristinna rita með slíkum hætti að ég hef síðan fundið mig kallaðann til að læra hvað ég get um þann heillandi veruleika.
Það er að mínu áliti fjölbreytileikinn sem gerir Biblíuna heillandi og það er styrkur hennar að áherslur og sjónarhorn rita Biblíunnar séu svo ólík. Guðspjöllin sem dæmi fjalla öll um mikilvægi Jesú Krists og með hvaða hætti krossdauði hans er mikilvægur í okkar lífi, en nálgun og áherslur guðspjallanna fjögurra er merkilega ólíkur. Sé litið til guðspjalla utan Nýja testamentisins er munurinn enn meira sláandi og það aðgreinir frumkristni frá trúarritun annarra trúarbragða.
Þekktur prestur í bandaríkjunum Nadia Bolz-Weber, sem kemur til með að halda námskeið hérlendis í sumar, líkir guðspjallamönnunum við nágranna sem auðga hverfið sitt með fjölbreytileika sínum. Matteus er, segir hún, hlédrægur ekkjumaður sem elskar garðinn sinn og býður okkur afleggjara af rósunum sínum en varar við þyrnum þeirra sem geta meitt. Markús er unglingstöffari sem segir sögur af ákafa, fer hratt yfir efnið og gleymir sér í smátriðum á spennandi köflum. Lúkas er úthverfastelpa sem er ábyrg og réttsýn og hefur eldmóð fyrir hugsjónastarfi og Jóhannes eldri þeldökk kona sem þekkir Guð af þeirri nánd sem sprettur fram af því að hvíla í trú á löngu og erfiðu æviskeiði. Þannig upplifir hún frásagnir hinna ólíku guðspjalla á ólíkan hátt.
Bréf Nýja testamentisins eru ekki síður áhugaverð og þau bera vott um mikinn áherslumun á milli höfunda og deilur um hvernig beri að túlka persónu og hlutverk Jesú Krists. Páll lýsir skemmtilega átökum sínum við Jakob bróðir Jesú og Pétur postula í Galatabréfi en þeir takast á um kenningaleg atriði en sammælast um að sameinast í áherslunni á þau sem höllum fæti standa í samfélaginu.
Það er eitt af þeim stefjum sem sameina hin ólíku rit, að ofar ágreiningi um túlkun á fagnaðarerindinu er áhersla á líknarþjónustu og starf með þeim sem eiga um sárt að binda í samfélaginu. Biblían þarf ekki að vera einsleitt ritsafn til að reynast kirkjunni grundvöllur, þvert á móti hefur fjölbreytileiki ritanna leitt af sér fjölskrúðugt og fjölbreytt trúarlíf í kristnum átrúnaði.
Þá einingu kristindómsins, mitt í fjölbreytileika í hefðum og áherslum, orðar Páll Postuli í pistli dagsins sem fenginn er úr þriðja kafla Galatabréfsins. Trú á krist er þar ofar öllum þeim þáttum sem aðgreina okkur sem manneskjur, þjóðerni, menningarmun, þjóðfélagsstöðu og kyni eða kynhneigð. Í trúnni birtist sú róttæka jafningjasamfélagssýn sem boðar að við erum systkini í trúnni, jöfn frammi fyrir hvert öðru, þrátt fyrir að vera ólík.
,,Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.”
Frásagnir guðspjallanna bera þess vitni að Jesús ögraði ítrekað þeim flokkunarkerfum sem eru sammannleg og gera greinarmun á fólki. Ertu ekki gyðingur, var hann spurður þegar hann umgekkst samverja. Ertu ekki réttlátur, var hann spurður þegar hann umgekkst bersynduga. Ertu ekki heilbrigður, var hann spurður þegar hann umgekkst holdsveika og ertu ekki karlmaður, var hann spurður þegar hann umgekkst konur sem jafningja.
Öll erum við manneskjur, hvernig sem heimurinn flokkar okkur og með þeim augum erum við krafin til að sjá hvert annað í gegnum augu trúarinnar á Krist. Sá boðskapur Biblíunnar er sígildur og jafn brýnn í dag og hann var fyrir 2.000 árum. Fordæming samtímans á Biblíuna er sú að hún sé úrelt og eigi því ekki við í nútímasamfélagi.
Biblían er sannarlega fornt ritsafn og rannsóknir á hugmyndaheimi og tilurð hinna fornu rita leitast við að túlka þá í því samhengi sem hún verður til í. Á sama hátt og myndmál biblíunnar leitar í hversdagslíf síns tíma þarf kirkjan að leita nýrra fanga í samtíma okkar til að miðla fagnaðarerindinu. Þau viðfangsefni sem brenna á samfélagi okkar eru mörg hver svo ólík að þættir í umræðu biblíurita eiga litla samsvörun á okkar tímum, en grunnstefið er sígilt.
Sú tilhneiging manneskjunnar til að draga fólk í dilka og það samfélagslega óréttlæti sem birtist í harðstjórn og auðsöfnun á meðan almenningur býr við fátækt hefur verið raunveruleiki fólks á öllum öldum. Úr þannig stöðu leiddi Móse þrælaþjóð til fyrirheitna landsins, þar tóku við spámenn Gamla testamentisins sem áminntu þjóðina um að reynast útlendingum og ekkjum vel og Jesús var óþreytandi við að benda á mannhelgi manneskjunnar. Sú mannhelgi birtir það besta sem siðferðisvitund okkar hefur teflt fram og henni er sífellt ógnað af þeirri tilhneigingu að troða öðrum um tær til að skara eld að eigin köku.
Fyrir 200 árum voru stofnsett biblíufélög meðal nágrannaþjóða okkar og hérlendis er það elsta starfandi félag á Íslandi. Sannfæring þeirra sem stofnuðu Hið íslenska Biblíufélag var sú að útgáfa, útbreiðsla og notkun Biblíunnar væri þjóðinni til heilla og þeirri sannfæringu deilir kirkjan. Ekkert rit á brýnna erindi til þjóðarinnar, í trúarlegu, menningarlegu og samfélagslegu tilliti en Biblían og ekkert markmið er göfugra en að greiða veg hennar á Íslandi.
sr. Sigurvin Lárus Jónsson