Guðlaugur Gunnarsson hefur þýtt og ort fjölda ljóða sem sungin eru víða í kirkjum landsins. Hann samdi nokkur falleg ljóð fyrir Biblíufélagið í tilefni af 200 ára afmæli félagsins og hér er eitt þeirra. Í ljóðinu er fjallað um hvað Orð Guðs gefur í dagsins önn.

Öldum frá 

Heilagt orð Guðs öldum frá
eflir hug og mætir þrá.
Á því tímans tönn ei vann.
Trú og vissu í því fann.

Viðlag:
Gömlu orðin ávallt sönn
okkur breyta’ í dagsins önn.
Komum enn með opinn hug,
orðið kveikir von og dug.

Lífsins orð Guðs vekur von,
veitir styrk og hjálp í raun.
Sama hvar ég sef og fer
sígilt orð Guðs heim mig ber.

Trúarorðin eyrum ná,
okkur gefin öldum frá,
kostað hafa fórn og háð.
Heyrið trúföst orð um náð!

Heilagt orð Guðs varðveitt vel,
veganesti’ í heimi hér.
Elsku Guðs og ást til manns
orðið tjáir miskunn hans.

Guðlaugur Gunnarsson