Skálholtshátíð
Á Skálholtshátíð verðu kastljósinu beint að Ragnheiði biskupsdóttur  og 200 ára afmæli Hins íslenska Biblíufélags á Skálholtshátíð 18.-19. júlí n.k.
Dagskrá hátíðarinnar hefst kl. 10:00 laugardaginn 18. júlí með málþingi í Skálholtsskóla um Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Erindi flytja Auður Hildur Hákonardóttir listakona, Jón Sigurðsson, formaður Skálholtsfélags hins nýja og Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor. Tónlist annast Margrét Bóasdóttir og Sigurður Halldórsson.
Klukkan 12.45 hefst útimessa við Þorlákssæti en kl. 14.00 munu biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir og frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, afhjúpa minningarmark í Skálholtskirkjugarði um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og fjölskyldu hennar. Vörðukórinn syngur undir stjórn Eyrúnar Jónasdóttur. Síðan er minningarstund í kirkjunni.
Þennan dag verður opnuð sýning á Biblíum úr Skálholtsbókasafni í tilefni af 200 ára afmæli Hins Íslenska Biblíufélags, en safnið á eintök allra elstu Biblíuútgáfa á Íslandi. Einnig kynnir Mjöll Snæsdóttir fornleifafræðingur fornleifarannsóknir og uppgröft bæjarstæðis í Skálholti. Kaffisala verður í Skálholtsskóla milli kl. 15 og 17.
Tónleikar í Skálholtsdómkirkju á vegum Sumartónleikanna verða svo kl. 16  og 21.

Sunnudaginn 19.júlí verða orgeltónleikar í kirkjunni fyrir hádegi þar sem Jón Bjarnason organisti leikur orgeltónlist eftir Francois Couperin, Johann Sebastian Bach, D. Buxtehude, G. F. Handel og Charles-Marie Widor.
Kl. 14.00 verður hátíðarmessa í Skálholtsdómkirkju með þátttöku pílagríma sem ganga til hátíðarinnar frá kirkjunum að Bæ í Borgarfirði, Þingvöllum og Hruna. Dr. Einar Sigurbjörnsson predikar. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar og Margrét Bóasdóttir syngur einsöng. Biskup Íslands, frú Agnes M. Sigurðardóttir þjónar fyrir altari auk vígslubiskups og sóknarprests. Lesarar auk þeirra verða Magnús E. Kristjánsson, forseti kirkjuþings og Ólöf Kristjánsdóttir, aðalbókari á Biskupsstofu. Meðhjálparar verða Elinborg Sigurðardóttir og Helga Lára Guðmundsdóttir.
Kirkjukaffi í skólanum að lokinni messu.
Klukkan 16.15 verður hátíðarsamkoma í kirkjunni þar sem þess verður sérstaklega minnst að 200 ár eru liðin frá stofnun Hins íslenska Biblíufélags. Þar flytur Dr. Guðrún Kvaran aðalerindi hátíðarinnar:  Brautryðjendur í biblíuþýðingum á Íslandi – Um þátt þeirra Odds Gottskálkssonar og Gissurar biskups Einarssonar. Skálholtskórinn syngur undir stjórn Jóns Bjarnasonar. Drífa Hjartardóttir, formaður stjórnar Skálholts, flytur ávarp og biskup Íslands frú Agnes M Sigurðardóttir, lýkur dagskránni.
Að loknum kvöldbænum klukkan 18.00 verður afhjúpaður minningarsteinn um Sveinbjörn Finnsson, staðarráðsmann í Skálholti 1964- 1990, á mörkum skógræktarsvæðisins í Ásunum norðan Skálholtsstaðar. Steinninn er gjöf barna Sveinbjörns.

Nánari upplýsingar um dagskrána má sjá á   http://skalholt.is