Frá Kirkju sjöunda dags aðventista á Íslandi

Sumarmót Aðventkirkjunnar fer fram núna um helgina 5.-7. júní í Hlíðardalsskóla í Ölfusi. Aðalræðumaður mótsins verður guðfræðingurinn Daniel Duda sem kennir við háskóla kirkjunnar í Englandi. Efni hans um helgina er „The Grand Story of the Bible“ (Hin stórkostlega frásögn Biblíunnar), þar sem hann á spennandi hátt dregur saman meginþætti kenningar Biblíunnar frá upphafi til enda á fáeinum fyrirlestrum. Mál Daniels verður túlkað í íslensku.
Ræðumaður unga fólksins verður Joakim Hjortland frá Svíþjóð en hann er formaður IMPACT sem er hreyfing ungra aðventista sem hefur það að markmiði að virkja fleira ungt fólk í kirkjunni  til þess að þjóna Guði í samfélaginu. Á mótinu verður einnig metnaðarfull barnadagskrá.
Í tengslum við mótið, í tilefni 200 ára afmælis Hins íslenska Biblíufélags, verður sett upp biblíusýning með nokkrum gömlum Biblíum sem eru í eigu kirkjunnar. Þar verða t.d. til sýnis Guðbrandsbiblía sem Reykjavíkursöfnuði hlotnaðist að gjöf frá Óháðasöfnuðinum á sínum tíma, Viðeyjarbiblía (1841), Reykjavíkurbiblía (1859), Lundúnarbiblía (1866, eintak O.J.Olsens), og svo þær Biblíur sem út hafa komið síðan.
Einnig er á sýningunni  Biblía sem tengist átaki innan kirkjunnar frá 2008 – 2010 sem kallaðist „Follow the Bible“ eða „Fylgið Biblíunni.“ Þá var framleidd Biblía í stóru broti (46×30 sm) sem var þýdd á 66 tungumál, eitt fyrir hverja bók Biblíunnar. Biblía þessi ferðaðist síðan um allan heim á þessum tveim árum. Ferðin hófst á Filipseyjum í október 2008 og lá síðan um Indland og lönd Suð-Austur Asíu og þaðan til allra álfa heims. Endalok ferðalagsins voru í Atlanta, Georgíu í BNA í júlí 2010 þar sem þá var haldin heimsráðstefna kirkjunnar.
Á hverjum stað þar sem Biblían kom var blásið til viðburða í kirkjum eða á fjölmennum samkomustöðum þar sem oftar en ekki var samkirkjuleg þátttaka og þar sem framámenn þjóðfélagins, jafnvel þjóðhöfðingjar voru viðstaddir. Tilgangurinn var að kynna Biblíuna og efla veg hennar sem víðast í heiminum og hvetja til frekari biblíulesturs. Ýmislegt athyglisvert gerðist í kjölfar þessa átaks á hinum ýmsu stöðum. Sem dæmi má nefna átak til eflingar trúfrelsis og mannréttinda í Kasakstan, samstarf milli trúfélaga í Kirkenes í Noregi, tímamótaárangur í kynningu Biblíunnar á Arabíuskaga, prentun Biblíunnar í hundruðþúsunda tali á ensku, frönsku og spönsku í Suður-Ameríku, og svo má lengi telja. Til gamans má nefna að í Danmörku var flogið með Biblíuna til 40 staða í lítilli einkaflugvél og sýndu heimamenn á hverjum stað þessu átaki mikinn áhuga. Til Íslands kom Biblían 20 ágúst 2008 í stuttan stans og var hún sýnd á Reykjavíkurflugvelli, á Akureyri og í Vestmannaeyjum.
Mótið í Hlíðardalsskóla hefst föstudaginn 5. júní kl. 20.00 og lýkur kl 17.00 sunnudaginn 7. júní og er öllum opið.  Sjá nánar á www.adventistar.is.