Á Kvennafrídaginn 24. október árið 1975 hljómaði lagið „Áfram stelpur“ yfir fjöldann á Lækjartorgi. Síðan þá hefur þetta lag oft verið sungið á kvennadaginn 19. júní.
Í dag fagna Íslendingar 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna en ný stjórnarskrá með ákvæði um að konur og vinnumenn eldri en 40 ára fengju kosningarétt og kjörgengi til þingkosninga var samþykkt árið 1915. Það átti þá að lækka aldurstakmarkið í skrefum um eitt ár á ári hverju þar til það væri komið niður í 25 ár til jafns við karlmenn. Það takmark hefði náðst árið 1931 að óbreyttri stjórnarskrá. Frá þessu var fallið árið 1920 og kosningaréttur karla og kvenna gerður jafn.
Frammi fyrir Guði erum við öll jöfn. Í Galatabréfinu 3:27-29 stendur:
„Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú“
Til hamingju með daginn!