Eftirfarandi grein birtist í Morgunblaðinu, laugardaginn 6. júní sl.

Kristin trú hefur mótað íslenska menningu og sögu í meira en þúsund ár. Þar hefur Biblían verið mikill áhrifavaldur. Nú um stundir eru hins vegar margir sem vilja sem minnst af þessum áhrifum vita og tala um trúna alfarið sem einkamál og Biblían eigi ekki erindi í hið opinbera rými, a.m.k. ekki í skólana. Það er skaði því þannig fara nemendur hins íslenska skólakerfis á mis við mikilvæga menntun um afar víðtækan áhrifaþátt í sögu þjóðar okkar og menningar.
Í þessari stuttu grein langar mig að minnast eins þeirra sem vitnaðu í ræðu og riti um Biblíuna sem mikinn áhrifavald í lífi sínu. Þórir Kr. Þórðarson (1924-1995) gerði ekki bara það heldur helgaði henni ævistarf sitt sem prófessor í ritskýringu og útleggingu hinna hebresku ritninga við Háskóla Íslands. Þórir sat kennslustólinn á þessu fræðasviði í 40 ár, 1954-1994, en hann sat líka í borgarstjórn Reykjavíkur í tvö kjörtímabil, 1962-1970 og lét þar mjög til sín taka, ekki síst á sviði félags- og öldrunarmála.
Þórir hafði þá fræðilegu afstöðu til Ritninganna að þær skyldu rannsakast í ljósi þess þjóðfélags sem þær urðu til í og túlkast í ljósi þess þjóðfélags sem notar þær. Í því sambandi varð honum tíðrætt um mikilvægi heimfærslunnar, þ.e. að færa hinn forna en sígilda boðskap ritninganna heim, byggja brú frá hinum fornum textum yfir til samtíðar okkar, og ekki bara í orði heldur einnig í verki.
Það er almennt viðurkennt að Þórir var hugmyndafræðingurinn að baki þeirri róttæku endurskipulagningu á félagslegri þjónustu, er leiddi til stofunar félagsmálaráðs og Félagsmálastofnunar Reykjavíkur á síðari hluta sjöunda áratugar síðustu aldar. Með þeirri nýskipan var brotið blað í sögu velferðarmála hér á landi.
Þórir tjáði mér oft að þarna hefði hann í raun unnið sem biblíufræðingur. Þetta var hans heimfærsla á hinum biblíulega boðskap í verki. Hið ábyrga þjóðfélag hafði ekki kirkjuna úti í horni sem stofustáss. Það lét sér annt um lítilmagnann, eins og spámenn Gamla testamentisins, sem töluðu máli ekkjunnar, munaðarleysingjans og annarra sem minna máttu sín. Hinn miskunnsami Samverji Nýja testamentisins horfði ekki framhjá neyð náunga síns heldur kom honum til hjálpar.
Það var við hæfi þegar afmælisrit Þóris Kr. Þórðarsonar var gefið út á sjötugsafmæli hans 9. júní 1994 að það hafði yfirskriftina Trú og þjóðfélag.
Þessa er hollt að minnast nú þegar Hið íslenska biblíufélag fagnar 200 ára afmæli sínu, elsta starfandi félag í landinu.

Gunnlaugur A. Jónsson,
Höfundur er prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins við Háskóla Íslands.