Þessa dagana er sýning á Biblíum á Amtsbókasafninu á Akureyri þar sem hægt er að sjá meðal annars ljósprentað eintak af Guðbrandsbiblíu, Viðeyjarbiblíu ásamt Biblíum á ýmsum tungumálum. Á sýningunni má einnig sjá litaðar myndir sem leikskólabörn frá leikskóla KFUM og K, Vinagarði, teiknuðu við hátíðarvers sem valin voru í tilefni af 200 ára afmæli félagsins.

Laugardaginn 16. maí síðastliðinn var boðið upp á dagskrá á safninu en þar var meðal annars barnastund þar sem sungin voru létt lög,  brúðuleikhús og sögð biblíusaga. Íris Andrésdóttir, 19 ára, nemi við tónlistarskóla Kópavogs og FÍH, söng lög sem sérstaklega voru valin af þessu tilefni, allt lög með textum úr Biblíunni eða vísun í boðskap hennar. Þar var meðal annars frumflutt lag sem samið hafði verið við texta sr. Guðmundar Guðmundssonar, héraðsprest í Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi,  sem heitir Orð Guðs.
Dagskráin tókst vel og Biblíufélagið þakkar Amtsbókasafninu og sérstaklega Nönnu Lind Svavarsdóttur, verkefnastjóra, fyrir frábært samstarf.