Biblían segir frá alls konar fólki í alls konar aðstæðum, bæði hversdagslegum og ítrustu aðstæðum lífsins.  Ég heillast sérstaklega af frásögnum af konum í Biblíunni og finnst ég nánast hafa eignast vinkonur í þeim, svo mjög hef ég velt þeim fyrir mér og reynt að setja mig í þeirra spor.  Nokkrar þeirra eiga það sameiginlegt að vera eignaður kveðskapur í Gamla testamentinu.
Ein þeirra er Hanna sem sagt er frá í Fyrri Samúelsbók.  Hanna þráði nefnilega svo heitt að verða móðir.  Í samfélaginu sem Hanna bjó í var álitið að það væri meir en lítið að konu sem ekki gat eignast börn.  Svo Hanna bað til Guðs, heitt og innilega, að hún fengi að eignast barn.  Og Hanna var bænheyrð.  Hún fæddi dreng, og tjáði þakklæti sitt í lofsöng sem lesa má í 2. Kafla Fyrri Samúelsbókar.
Önnur kona er Mirjam, systir Móse sem Mósebækurnar fimm eru kenndar við.  Móse naut dyggrar aðstoðar systkina sinna þeirra Arons og Mirjamar í vandasömu leiðtogahlutverki sínu sem Guð hafði valið hann til, að leiða Ísraelsþjóð úr ánauð í Egyptalandi.  Í 2. Mósebók, 15.kafla er sagt frá því þegar Mirjam fer fyrir hópi kvenna sem fagna, slá á trumbur, dansa og syngja lofsöng þegar Guð hafði klofið Sefhafið svo Ísraelsmenn fóru þurrum fótum gegnum hafið á flótta sínum.  Almennt er álitið að þessar ljóðlínur sem eignaðar eru Mirjam séu með allra elstu textum/textabrotum Gamla testamentisins.
Í Dómarabókinni er sagt frá Debóru sem, var einn af fyrstu leiðtogum (”dómurum”) þjóðarinnar fyrir konungatímann.  Frá henna er sagt í 4.kafla Dómarabókarinnar.  Debóra var afar farsæll dómari sem fylkti þjóð sinni að baki sér.  Eftir árangursríka herför yrkir Debóra og syngur sigursöng.  Þess má geta að þegar Vigdís Finnbogadóttir sem var fjórði forseti íslenska  lýðveldisins var sett í embætti prédikaði hr. Sigurbjörn Einarsson biskup og lagði út frá frásögninni um Debóru.
Það er nærandi, áhugavert og spennandi að kynnast fólkinu í Biblíunni.  Á afmælisári Hins íslenska Biblíufélags sem fagnar nú 200 ára afmæli sínu er vel til fundið að taka sér Biblíuna í hönd og lesa.
Sr. Ninna Sif Svavarsdóttir