Nýlokið er nokkurra daga hátíðahöldum í Uppsölum þar sem haldið var upp á 200 ára afmæli sænska Biblíufélagsins með veglegri hátíðardagskrá. Uppsalir tóku á móti þátttakendum með sól og fallegu veðri. Sannarlega má segja að það hafi verið sól inni og sól úti, því það sem einkenndi hátíðina var gleði og samhugur. Boðið var upp á fjölbreytta fræðslufundi og fyrirlestra, samkomur, tónlistaratriði og fjölsótta hátíðarmessu í Dómkirkjunni í Uppsölum. Meðal annars var kynnt lifandi og áhugavert verkefni sem sænska biblíufélagið hefur þróað og boðið grunnskólum landsins, en það er farand-fræðsluefni um sögur Biblíunnar undir nafninu „Biblíuævintýri“. Sögurnar eru fluttar á lifandi hátt með leikrænum hætti. Verkefnið hefur vakið verðskuldaða athygli og bæði kennarar og nemendur hafa lýst ánægju sinni með það.
Framkvæmdastjóri HÍB, Ragnhildur Ásgeirsdóttir, var fulltrúi Íslands í hátíðahöldunum. Auk þess var tíminn nýttur til fundahalda með samstarfsfólki á Norðurlöndunum og framkvæmdastjóra Sameinuðu Biblíufélaganna, United Bible Societies, Michael Perreau.
„Það var virkilega uppörvandi að sjá og finna þann samhug sem ríkti á milli þátttakenda hátíðahaldanna um þau verkefni sem verið er að vinna að, útbreiðslu og notkun Biblíunnar, jafnt í heimahögum og þar sem kirkja og kristni hefur átt erfitt uppdráttar. Mér fannst einstakt að hlusta á Michael Perreau, frá UBS, þegar hann lýsti heimsóknum sínum til Kúbu þar sem þráin eftir Guðs orði er nánast áþreifanleg. Biskupar, prestar og vinir sænska Biblíufélagsins frá kirkjum og kristnum söfnuðum víðs vegar um landið tóku þátt í hátíðahöldunum og það var mjög gaman og gefandi að kynnast þessu fólki“ segir Ragnhildur
Á meðfylgjandi myndum má sjá formann stjórnar sænska biblíufélagsins Erik Aurelius, stúlknakór Dómkirkjunnar í Uppsölum og stjórn Biblíufélagsins.