,,Ert’að lesa Biblíuna?! Veist’ekki hvað Biblían er leiðinleg?!” spurði menntskælingurinn jafnaldra sinn sem sat með opna Biblíu á bókasafni skólans og las.
Aðspurður viðurkenndi spyrjandinn reyndar að hann hefði aldrei lesið í Biblíunni, sá sem las hvatti hann eindregið til að prófa það, það gæti komið honum skemmtilega á óvart.
Sagan er sönn þó hún hafi ekki hent sjálfan mig, en ég átt svipaða reynslu. Ég byrjaði að lesa Biblíuna að staðaldri þegar ég var 13-14 ára gamall. Ég ólst upp á trúuðu heimili og vandist snemma á kirkjusókn, hafði oft heyrt lesið upp úr henni. Það var samt eitthvað alveg nýtt sem opnaðist fyrir mér þegar ég fór að lesa sjálfur. Mér fannst Biblían spegla veruleikann svo undurvel, hún talaði inn í mínar kringumstæður, svaraði mínum vangaveltum og vakti upp óendanlega margar spurningar.
Sumir textar Biblíunnar voru eins og ferskur andblær inn í sálina, aðrir textar voru þannig að ég þurfti bara að loka bókinni og hugsa. Sumar frásögur Biblíunnar stuða mann, sumir textarnir setja mann úr jafnvægi, að horfast í augu við þá texta og takast á við þá hefur reynst mér mjög hollt.
Ég hef aldrei hætt að lesa Biblíuna, les hana reyndar mismikið, en er alltaf að lesa í henni. Ég hef ekki ennþá upplifað það að lesa Biblíuna án þess að fá eitthvað út úr lestrinum.
Þeir sem hafa komist á bragðið verða yfirleitt lesendur fyrir lífstíð. Fyrir þá sem vilja byrja getur skipt máli hvaða nálgun er tekin. Ég myndi mæla með Nýja Testamentinu, það er nær okkur í tíma og menningu. Velja eitt Guðspjall, margir velja Jóhannesarguðspjall og eitt bréf, til dæmis Filippíbréfið og byrja á að lesa þær tvær bækur. Taka síðan bækur Nýja Testamentisins fyrir eina af annari. Í Gamla Testamentinu myndi ég mæla með að byrja á orðskviðum Salómons, jafnvel lesa svolítið í sálmum Davíðs. Gamla Testamentið er aðeins meiri áskorun, en þegar maður er kominn svolítið inn í það er það alger perla.
Er Biblían leiðinleg, gömul, úrelt bók sem hyglir þröngsýnum og forneskjulegum viðhorfum? Er það viðhorf byggt á eigin kynnum? Stöndum við kannski stundum eins og unglingurinn og spyrjum þann sem er að lesa hvað sé að honum, hvort hann viti ekki hvað bókin sé leiðinleg?
Í ár fagnar hið íslenska Biblíufélag 200 ára afmæli, við Íslendingar eigum safn frábærra þýðinga á Biblíunni og nýjasta viðbótin sómir sér vel í safninu. Biblían er til á máli sem við tölum og skiljum, hefur reyndar mótað það mál þó nokkuð.
Í dag er Biblían kannski leiðinlegasta bók sem þú hefur aldrei lesið, ég hvet þig lesandi góður til að gefa henni tækifæri, hún gæti orðið besta bókin sem þú lest að staðaldri. Ég hvet þig að tilefni afmælis Biblíufélagsins að opna Biblíuna, byrja vel og halda út, maður veit nefninlega aldrei af hverju maður gæti verið að missa.

Helgi Guðnason
Forstöðumaður
Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu