Dreifing á 1.650.000 biblíusmáritum sem ætlað er að hugga þjóð í sorg er komin vel á veg í Egyptalandi, í kjölfar þess að 21 ungir, kristnir Egyptar voru myrtir af ISIS í Líbýu fyrir nokkrum vikum.
„Hingað til er þetta útbreiddasta dreifingin á kristnum smáritum í sögu Egyptalands,“ segir Ramez Atallah, framkvæmdastjóri Hins egypska biblíufélags sem bjó til bæklingana daginn eftir að myndbandið af drápunum var gefið út.
Dreifing smáritanna, sem kallast „Tvær raðir við sjóinn“, hófst aðeins tveimur dögum síðar, miðvikudaginn 18. febrúar, á vikulegu biblíunámskeiði Tavadros páfa í Koptísku dómkirkjunni í Kaíró. Smáritin fengust skjótt í kirkjum víðs vegar um landið.
Landlæg eymd
„Vegna hinnar landlægu eymdar, vegna þessara grimmilegu manndrápa og vegna þess hversu skjótt smáritin urðu fáanleg, hafa kristnir menn dreift þeim hvarvetna — á strætum, í búðum, strætisvögnum og lestum,“ segir hr. Atallah. „Og þar nær til fólks á öllum sviðum; við höfum heyrt um mörg tilfelli, þar sem kristnir menn fengu þau í gegnum múslimska vini og nágranna sem fengu þau fyrst!“
Bæklingurinn hefur að geyma ljóð um trú ungu mannanna og inniheldur safn fimm ritningargreina.
„Við vildum sjá fólkinu fyrir einhverju sem myndi veita huggun í sorg,“ segir hr. Atallah. „Fólk er viti sínu fjær vegna þess sem gerst hefur. Því finnst það vera týnt og það spyr svo margs um ástæður þess að þessir ungu menn voru drepnir. Á meðan engin auðveld svör eru á hraðbergi, minnir Biblían okkur á að renna munu upp reynslutímar en kærleikur Guðs gagnvart okkur varir um eilífð.
Til dæmis segir í 1Pét 4.12: „Þið elskuðu, látið ykkur ekki undra eldraunina, sem yfir ykkur er komin, eins og eitthvað áður óþekkt hendi ykkur.“ Og í 14. versi er haldið áfram: „Sæl eruð þið þegar menn smána ykkur vegna nafns Krists. Andi dýrðarinnar, andi Guðs, hvílir þá yfir ykkur.“
Sameining kristinna manna og múslima
Hr. Atallah segir að morðin á ungu mönnunum hafi sameinað kristna menn og múslima í hinu hrjáða landi.
„ISIS-liðar vonuðust til þess að með því að sýna þetta myndband af morðinu, myndu þeir kynda undir óeirðir á milli sértrúarhópa innan múslima og kristinna manna, en það hefur haft þveröfug áhrif. Kristnir menn hafa brugðist við með því að hrópa harmþrungnir til Guðs, og múslimar hafa auðsýnt þeim kærleika og umhyggju.
Verið svo væn að biðja þess að mitt í þessari depurð og fordæmislausu einlægni megi Guð nota þessi biblíusmárit til þess að hugga marga Egypta og hvetja þá til dáða.