,,Fyrir þá sök líð ég og þetta. En ég fyrirverð mig eigi því að ég veit á hvern ég trúi. Og ég er sannfærður um að hann er þess megnugur að varðveita það sem mér er trúað fyrir þar til dagurinn kemur “ (2.Tím.1:12).
,,Þetta vers á sérstakan sess í hjarta mínu því að það er í senn hvatning og áminning. Páll postuli skrifar lærisveini sínum, fjallar um mótlætið sem hann mætir, en hann skammast sín ekki, er ekki hræddur og óöruggur, því hann veit á hvern hann trúir.
Í þessu er hvatning, veit ég á hvern ég trúi? Er samband mitt við Guð slíkt að ég geti horfst í augu við ofsóknir og dauða án þess að blikna? Ekki vegna þess að ég viti svo mikið um Guð heldur þekki hann. Þetta er líka áminning, að vera kristinn snýst ekki um að vita mikið um Guð, þekkja hann af afspurn heldur er þetta persónuleg ganga með Drottni okkar og frelsara. Trúin vex þegar við fáum að reyna Guð, það reynir ekki á öryggisbúnað fyrr en við lendum í hættu. Það reynir ekki á trúfesti Guðs fyrr en við erum í vanda, miskunn hans fyrr en við missum marks, orðheldni hans fyrr en við höfum stigið fram í trú. Friður í hjarta og óbilandi traust á Guði er afsprengi lífs sem lifað er með Guði. Fyrir þjón Guðs þýðir það margar raunir, mikið álag og fullt af mögnuðum sögum um hvernig Guð hefur reynst trúr. Veistu á hvern þú trúir? Þú getur byrjað að kynnast honum í dag, með því að fela þig honum, gefa þig orði hans og velja að ganga í hlýðni við Guð og hans orð. Þá kemst þú í raun um að hann mun aldrei bregðast þér.
Helgi Guðnason, forstöðumaður Hvítasunnukirkjunnar Fíladelfíu.