„Pygmýjakona“, smávaxin blökkukona í Lýðveldinu Kongó, lýsir því hvernig lestrartímar í þorpinu sínu, byggðir á Biblíunni, veita sér nýtt sjálfsöryggi og von um betri framtíð.
Albertine er ekki viss um aldur sinn, en telur sig vera um fertugt. Hún á tvær nokkuð slitnar og stagbættar skyrtur, sem hún af natni hengir upp í litla kofanum sem hún deilir með 11 öðrum fjölskyldumeðlimum. Öll fötin hafa verið gefin fólkinu sem þóknun fyrir langar vinnustundir í annarra manna ökrum.
Nú býr Albertine ásamt fjölskyldu sinni í þorpi, en hún ólst upp sem hirðingi, er flutti frá einum stað til annars á nokkurra daga fresti. Eins og margar slíkar pygmýjakonur fékk hún aldrei tækifæri til þess að stunda nám og þurfti að framfleyta sér með því að vinna fyrir hina auðugu Bantu-þjóðflokka. Án nokkurs vafa eru pygmýjakonur jaðarhópur í samfélaginu og tíðum misnotaðar. Það er ekki óalgengt að þeim sé þrælað út í vinnu.
Þær liðu einnig skelfilegar þjáningar í 10 ára borgarastríði, sem lauk fyrir aðeins átta árum. Albertine vill ólm rifja upp hvernig hún var neydd í felur ásamt fjölskyldu sinni þegar herflokkar komu inn á landsvæði hennar. Þess vegna segist hún vera svona óttaslegin, meira að segja enn í dag. Hjarta hennar getur kippst við þegar bíll nálgast óvænt eða fugl skýst út úr skóginum fyrir framan hana.
En þrátt fyrir erfitt hlutskipti sitt er Albertine hamingjusöm kona. Og það þakkar hún því að sækja kirkju.
„Þegar ég byrjaði að fara í kirkju var mér sagt frá Guði sem elskar alla menn, hvort sem um er að ræða pygmýjakonur eða Bentu-fólk,“ segir hún brosandi.
„Við höfum alltaf litið þannig á að við séum minna virði en annað fólk. En eitt hef ég lært í kirkjunni, að enginn getur tekið í burtu kærleika Guðs til okkar. Það er svo uppörvandi að vita þetta.“
Hún er einnig í skýjunum yfir því að nú hefur langþráður draumur hennar ræst um að læra að lesa og skrifa. Á hverjum fimmtudegi taka hún og frændi hennar, Chico, sér hlé frá vinnu sinni á ökrunum og koma sér fyrir undir tré ásamt 30 öðrum þorpsbúum og sækja lestrartíma sem byggðir eru á Biblíunni. Þeir eru leiddir af eldri þorpsbúa sem hlaut þjálfun hjá Hinu kongóska biblíufélagi. Þorpsbúar læra að lesa og skrifa á lingala — sem er annað tveggja tungumála sem flest fólk getur talað.
„Að geta lært að lesa og skrifa er draumur sem ég þorði aldrei að trúa að gæti ræst,“ segir Albertine. „Og það er yndislegt að læra á lingala. Þegar ég fer á markaðinn núorðið get ég lesið á miðana og keypt þann varning af sjálfsdáðum sem ég þarf frá Bantu-fólkinu. Að fá tækifæri til að læra lætur mér líða eins og ég hafi eignast eitthvað sem aldrei er hægt að taka frá mér.“
Verið svo væn að biðja fyrir þessu lestrarnámi sem á sér stað á meðal innfæddra manna í mismunandi landshlutum Lýðveldisins Kongó. Um það bil 3 af hverjum 5 körlum og 4 af hverjum 5 konum á meðal innfæddra þjóðfélagshópa, þar á meðal „pygmýjafólks“, eru ólæs og berskjölduð gagnvart misbeitingu valds.