Þann 21. febrúar s.l. var haldinn alþjóðlegur dagur móðurmálsins. Hann var fyrsti dagurinn í alþjóðlegri viku móðurmálsins en hún stóð yfir til 28. febrúar. Á þeim degi var þess minnst að tungumálið er öflug leið til að varðveita arfleifð okkar og það er mikilvægt í námi og starfi.
Sameinuðu biblíufélögin leggja mikla áherslu á að allir hafi aðgang að Biblíunni á sínu móðurmáli. Þess vegna fer fram mikil þýðingarvinna á vegum Sameinuðu biblíufélaganna, útgáfustarfsemi og dreifing biblíutexta. Á alþjóðlegum degi móðurmálsins erum við minnt á mikilvægi þess að allir þjóðflokkar eignist Biblíu á sínu móðurmáli. Íslendingar voru meðal 20 fyrstu þjóða heims sem fengu Biblíuna þýdda á eigið tungumál. Það hefur haft gríðarleg áhrif á sögu okkar og menningu. Áhrifa Biblíunnar gætir víða í notkun og túlkun hennar í ólíkum listgreinum, svo sem í tónlist, kvikmyndum og bókmenntum. Íslensk menning hefur frá upphafi landnáms verið undir kristnum áhrifum og má þar nefna Íslendingasögurnar en þar er að finna biblíustef. Þjóðsöngurinn okkar var saminn út frá 90. Davíðssálmi. Það er markmið Biblíufélagsins á afmælisári þess, að Biblían sé sýnileg og lifandi. Að kynnt sé áhrifasaga Biblíunnar í íslensku samfélagi og mikilvægi boðskapar hennar. Að fólk meðtaki boðskap Biblíunnar og lifi hann. Lifandi trú hefur jákvæð áhrif á líf okkar og mótar það til góðs.