Hvað hefði Guð sagt um þig?

„Nói var réttlátur og vandaður maður á sinni tíð. Hann gekk með Guði.“ (1. Mós. 6:9)
Hver vill ekki fá svona eftirmæli? Að vera réttlátur og vandaður maður. Nói var maðurinn sem fann náð í augum Guðs þegar mannkynið var orðið spillt og jörðin fylltist af glæpum. Það er ekki víst að það hafi margir velt því fyrir sér hvað Nói hafi þurft að þola til að fá þessa umsögn Guðs.
Það er nefnilega ekki auðvelt að gera það sem rétt er þegar allir í kringum mann gera það sem er rangt. Það var hlutskipti Nóa. Það þarf enginn að segja mér að það hafi verið auðvelt fyrir Nóa að synda gegn straumnum. Það þarf enginn að segja mér að Nói hafi ekki orðið fyrir aðkasti vegna trúar sinnar. En Nói hélt sínu striki. Umsögn Guðs um Nóa skipti hann meira máli en umsögn samtíðarmanna hans. Fordæmi Nóa sýnir að það er hægt að gera það sem er rétt jafnvel þótt allir í kringum mann velji að gera það sem er rangt.
Í Biblíunni eru mörg dæmi um leiðtoga sem höfðu sterka siðferðisvitund og voru tilbúnir til að láta lífið fyrir hana. Jóhannes skírari var einn þeirra. Líf Jóhannesar var eflaust ekki auðvelt. En Jóhannes vissi á hvern hann trúði, hver hafði kallað hann til þjónustu og hverra erinda hann gekk.  Hann var trúr hlutverki sínu allt til dauða.
Í 1. Mósebók 4:7 segir: „ Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“
Langflestir hafa einhvern tímann fengið samviskubit. Við fáum samviskubit vegna þess að við höfum gert eitthvað rangt. Sumir burðast með samviskubit hvern einasta dag, allt lífið, og vita ekki að Jesús vill létta af þeim byrðinni. Ef samviskubit þjakar þig sem lest þessar línur gefðu þá Guði tækifæri til að hjálpa þér með því að játa synd þína fyrir honum og biðja um fyrirgefningu. Hann heyrir bænir þínar og léttir byrðinni af herðum þínum. Skynsamlegasta leiðin til að eignast sálarfrið og varðveita hann er að ákveða hvern morgun að gera það sem rétt er í dag og leitast við að lifa eftir orðunum sem Jesús sagði við konuna sem hefði verið grýtt ef Jesús hefði ekki skorist í leikinn og bjargað henni: „Syndga ekki framar.“ (Jóh. 8:11)

Nói gekk með Guði. Sá einstaklingur sem gengur með Guði, er einstaklingur sem tekur mark á orði Guðs og fer eftir því. Gengur þú með Guði?

Dögg Harðardóttir,

varaforseti Híb