Hugleiðingar í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags, 2015.
Auglit

Heyr, Drottinn, ég hrópa hátt,
ver mér náðugur og bænheyr mig.
Ég minnist þess að þú sagðir:
„Leitið auglitis míns.“

Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn.
Hyl eigi auglit þitt fyrir mér…. (Sálm 27. 7-9)

Hvítvoðungur í vöggu sinni skimar út í veröld sem hann þekkir ekki. Barnið er ekki lengur umlukið skjóli móðurlífsins. Hendur þess fálma stefnulaust og án öryggis. Það þráir nánd og yl og grípur til þeirrar einu tjáningar sem það hefur tök á.
Það grætur.

Yfir vöggunni birtist ásjóna, augu sem leita augna þess, bros sem mætir gráti þess, hendur sem mæta höndum þess. Og innan stundar er það aftur umlukið hlýju, nánd og elsku, við brjóst móðurinnar.  Þetta gerist aftur og aftur og aftur. Og barnið lærir að þekkja þessi augu, þetta bros, þessar hendur, þennan yl. Og kallar eftir því þegar því er einhvers vant.

All frá fyrsta degi lífs okkar erum við umkringd andlitum. Leitum þeirra sem brosa við okkur. Lítum undan þeim sem okkur fellur ekki. Þegar við fórum að kynnast jafnöldrum skimuðum við eftir andlitum sem okkur félli við, einhverjum sem svaraði tilliti okkar, við leituðum eftir viðmóti sem sagði okkur: Ég vil vera vinur þinn.

Unglingurinn, sem er að vakna til vitundar um sjálfan sig og finna fyrir nýjum kenndum, tekur að skima með nýjum hætti eftir augum sem ekki líta undan þegar þau mæta augum hans eða hennar, skima eftir ásjónu sem brosir öðruvísi en allar aðrar ásjónur. Leitin veldur eirðarleysi og jafnvel áhyggjum. Hvar eru augun sem ég leita, brosið sem ljómar við mér?

Í hvunndeginum skimum við eftir andlitum í þeirri von að mæta brosi, vingjarnlegu tilliti, viðurkennandi augnaráði, hlýju, athygli, – við viljum gjarnan vera séð, gjarnan skipta máli. Vinur mætir vini, það kemur glampi í augu, bros á vör. Vinir deila hugsunum, tilfinningum, vonum og vonbrigðum. Nánd. Tveir, augliti til auglitis. Samfélag.

Allt lífið erum við umkringd andlitum. Hvert þeirra segir sína sögu, sum eru döpur og áhyggjufull, önnur opin og brosandi, sum eru hörð og lokuð, önnur rist rúnum langrar ævi þar sem saman eru ofnir drættir sorgar og vonbrigða og gleði og vonar.

Og okkar eigin andlit segja öðrum sitthvað um okkur, hver við erum, hvað við viljum og hvernig okkur líður. Stundum er tillit okkar vingjarnlegt, hlýtt, viðurkennandi, stundum ásakandi, hafnandi, dæmandi. Og stundum setjum við upp svip sem við notum sem grímu til að fela það sem enginn má sjá.

Sakkeus tollheimtumaður skimaði einmana og útskúfaður eftir vingjarnlegri ásjónu, augum sem vildu horfa í hans. Jesús kom þar að, augu hans mættu augum Sakkeusar og Jesús sagði: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ (Lúk. 19. 1 – 10.)Augu Jesú leituðu þeirra sem enginn vildi sjá.

… Ég minnist þess að þú sagðir: „Leitið auglitis míns.“
Ég vil leita auglitis þíns, Drottinn. Hyl eigi auglit þitt fyrir mér …

Leit mín að Guði. Eirðarlaus leit að augum hans í þeirri von að þar geti ég lesið  elsku og boð um nánd, fyrirgefningu, viðurkenningu. Leit að tilliti Guðs sem lýsir yfir mig svo ég viti að ég er tekinn gildur, sé elskaður, svo ég geti eignast frið.

„Hyl eigi auglit þitt fyrir mér,“ hrópa ég með þeirri tjáningu einni sem ég kann.

Ásjóna Guðs leitar ásjónu minnar áreitnislaust.
Ásjóna Guðs bíður í þolinmæði eftir því að ég líti upp.

Hallgrímur Pétursson bað:

Ó, Jesú, að mér snú
ásjónu þinni.
Sjá þú mig særðan nú
á sálu minni.

Oft lít ég upp til þín
augum grátandi,
líttu því ljúft til mín
að leysist vandi.

Það er ekki tilviljun að þau ritningarorð sem hvað oftast eru höfð yfir þegar kristnir menn koma saman til guðsþjónustuhalds og af ólíkum tilefnum gleði og sorgar, eru hin Drottinlega blessun.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig,
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig
og sé þér náðugur,
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig,
og gefi þér frið. 4. Mós. 6,25.

Sr. Sigurður Pálsson