Það er gaman að vera í kringum börn og unglinga. Sköpunargleði þeirra og kraftur eru óþrjótandi og lífslgleðin mikil. Í dag geta börn og unglingar valið úr margskonar afþreyingu, síðdegis, kvöld og helgar. Meðal annars er boðið upp á fjölbreytt kristilegt barna- og æskulýðsstarf í kirkjum, söfnuðum og félagssamtökum eins og KFUM og KFUK.  Það kann að vera erfitt fyrir leiðtoga í kristilegu starfi að keppa við allan hraðann og spennuna í  tölvuleikjum, sjónvarpi og öðrum nútíma miðlum. Það sem kristilegt barna- og æskulýðsstarf getur hins vegar boðið börnum og unglingum er tími! Athygli! Gefandi, mannlegt samfélag, þar sem hvert barn, hver unglingur skiptir máli og fær að finna kærleika og gleði.
Nú á sunnudaginn kemur, 1.mars, er æskulýðsdagurinn, en þann sunnudag er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í öllum kirkjum landsins, æskulýðsmessur, tónleikar og skemmtilegir viðburðir sérstaklega sniðnir fyrir ungt fólk.
Boðskapur Biblíunnar á enn erindi við æsku Íslands. Margar kirkjur og kristnir söfnuðir afhenda unglingum og fermingarbörnum í kirkjunni Biblíur að gjöf, meðal annars Hvítasunnukirkjan Fíladelfía. Meðfylgjandi mynd var tekin við hátíðlega athöfn þegar unglingar kirkjunnar tóku við Biblíum úr hendi annars forstöðumanna safnaðarins, Helga Guðnasonar.
Æskan fyrir Krist! Biðjum fyrir börnum og unglingum þessa lands, að þeir mættu kynnast boðskap Biblíunnar og tileinka sér hann.