Þeir sem hafa lesið dagblöð undanfarna mánuði kunna að hafa rekið augun í stutt ritningarvers sem birst hafa öðru hverju á síðum dagblaðanna. Ýmsir hafa velt fyrir sér hverjir standa að baki þessum birtingum og hefur Biblíufélagið fengið margar fyrirspurnir um það. Fólk hefur lýst mikilli ánægju með birtingu biblíuversanna. Biblíufélagið hafði hins vegar engar upplýsingar um málið en séra María Ágústsdóttir kom félaginu á sporið. Á endanum upplýstist málið með hjálp Guðrúnar Margrétar Pálsdóttir hjá ABC barnahjálp, sem vissi allt um þetta og var fús að deila upplýsingum um hvernig framtakið kom til.
Segðu okkur hugmyndina á bak við þetta framtak?
„Dag einn í nóvember var ég að biðja og leita Guðs og fékk sterkt til mín að ég ætti að koma orði Guðs fyrir sjónir almennings. Guð gaf mér líka aðferðina til að gera þetta mögulegt. Það var að safna liði og stofna samtök til að fjármagna birtingar Biblíuversa í formi auglýsinga.
Daginn eftir var hringt í mig og mér boðið að hafa erindi á GLS- leiðtogaráðstefnunni í Neskirkju. Þar kom tækifæri til að segja frá hugmyndinni í örstuttu máli. Þar komu fyrstu liðsmennirnir og síðar bættust fleiri við sem vildu taka þátt í þessu verkefni. Grafískur hönnuður bauðst til þess að hanna umgjörð um versin. Eitt leiddi af öðru og fljótlega voru stofnuð „Samtök áhugafólks um kristni á Íslandi“ með það að markmiði að koma orði Guðs á framfæri í fjölmiðlum.
Daginn eftir stofnfundinn opnaði ég Biblíuna mína og fyrsta versið sem ég las var úr Rómverjabréfinu 10.20 sem segir: „Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér.“ Þetta er einmitt það sem birting þessara versa snúast um. Guð ætlar að láta þá finna sig sem ekki eru að leita að honum og verða augljós þeim sem hafa ekki verið að spyrja eftir honum. Með þessum versum í dagblöðunum er komin leið fyrir Guð til að ná til þeirra sem fara ekki í kirkju og lesa ekki Biblíuna.
Orð Guðs er lifandi og kröftugt og mun ekki snúa tómt til baka fyrr en það hefur framkvæmt það sem Guð fól því að framkvæma og það er bæn mín að svo megi verða.
Birting versanna hófst þann 4. desember sl. og hafa síðan þá mismunandi vers birst í einhverju dagblaðanna flesta daga. Versin skiptast á að vera í Morgunblaðinu (mánud., miðvikud., fimmtud. og laugard.), í Fréttablaðinu (þriðjud. og helgarbl.) og í Fréttatímanum (föstud.)“
Er ekki mikill kostnaður við þetta verkefni? 
„Jú, þetta er dýrt og við gætum alveg þegið liðsauka. Ég hef sent þeim sem ég hef á skrá reikningsnúmer mánaðarlega til að leggja inn á og hingað til höfum við getað staðið við okkar skuldbindingar gagnvart dagblöðunum. Þetta stendur þó frekar tæpt þannig að það væri vel þegið ef einhverjir fleiri vildu leggja þessu lið. Hægt er að skrá sig með því að senda póst á vers@versdagsins.is eða leggja framlag á reikning nr. 515-26-571114, kt. 571114-0110“
http://versdagsins.is

Biblíufélagið hvetur félagsfólk sitt til að taka þátt í þessu frábæra verkefni og leggja því lið.