Fyrsti dagur í lönguföstu hefst í 7. viku fyrir páska og er Öskudagur. Nafnið Öskudagur kemur fyrir í íslenskum handritum frá 14. öld en talið er að það sé eldra. Í kaþólsku kirkjunni var dagurinn mikilvægur og þá var ösku dreift yfir höfuð kirkjugesta til að minna á iðrun. Askan var einnig smurð á enni kirkjugesta. Askan var tákn hins forgengilega og var talin búa yfir heilnæmum og hreinsandi krafti. Við siðaskiptin hélt fólk áfram að gera sér dagamun síðustu dagana fyrir föstu og það voru bolludagur, sprengidagur og öskudagur.
Það er mjög sjaldgæft að Íslendingar fasti í trúarlegum tilgangi. Sú hugmynd að neita sér um eitthvað hefur þó nokkuð rutt sér til rúms á síðustu árum. Að borða einfaldan mat, forðast óhóf í mat og drykk. En hvað kennir fastan okkur? Fastan minnir okkur á það sem við eigum, minnir okkur á að þakka og kunna að meta og gleðjast yfir því. Með föstunni minnumst við síðustu daga Krists, íhugum þjáningu hans og dauða. Meinlætið getur þannig minnt okkur á það sem Jesús þurfti að líða.
Öskudagurinn er 18. febrúar. Þá má sjá spider-menn, bat-menn, prinsessur og álfa syngja og dansa um götur borgarinnar. Það er gott að börnin gleðjist yfir búningunum sínum og hafi gaman á öskudaginn en eftir skemmtilegan dag fá þau að taka niður grímurnar og fá að vera þau sjálf. Þannig elskar Guð okkur, eins og við erum, án grímu eða búninga.