Ræða flutt í Grenivíkurkirkju á Biblíudegi 2015. Í tilefni af 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags sagði ég sögu Ebenezer Hendersonar og ferða hans norður í land sumurin 1814 og 1815 þar sem hann kynntist sr. Jóni lærða Jónssyni sem var upphaf af bréfaskriftum þeirra um árabil. Þetta er þáttur um stofnun Biblíufélagsins og athyglisverður.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

1.

Ungur maður var á ferðalagi um Ísland fyrir 200 árum. Skoskur var hann á vegum Hins breska og erlenda biblíufélags sem nýlega hafði verið stofnað. Mikil félagsvakning var að hefjast í samfélagi og kirkju. Ebenezer Henderson hét maðurinn.

Ebenezer Henderson. Ferðaðist um Ísland 1814-15 á vegum Hins breska og erlenda biblíufélags.

Ebenezer Henderson. Ferðaðist um Ísland 1814-15 á vegum Hins breska og erlenda biblíufélags.

Það má enn finna merki um ferðir hans fram í Eyjafjarðarsveit. Á kirkjuloftinu í Grundarkirkju var geymt bókasafn sr.  Jóns lærða Jónssonar frá Möðrufelli. Þar eru áritaðar bækur frá þessum ágæta ferðamanni sem hann sendi sr.  Jóni til að hvetja hann til dáða varðandi útgáfu á fyrsta kristilega eða evangelíska tímariti á landinu.

Höfundur að flokka „Safn Jóns lærða“ sumarið 2013.

Höfundur að flokka „Safn Jóns lærða“ sumarið 2013.

Þeir skrifuðust á um margra ára skeið. Sum bréf sr. Jóns birtust í virtu tímariti Hins breska og erlenda biblíufélags og eru eintök af því í safni sr. Jóns lærða. Bréfsamskipti þeirra eru á handritadeild þjóðarbókhlöðunnar og í skjalasöfnum erlendis. Þau eru lýsandi vitnisburður um hug þessara manna að vilja dreifa Guðs góða orði til meðbræðra sinna og systra. Enn eru til Nýja testamenti í kirkjum þar fremra sem Ebenezer Henderson kom með í farangri sínum. Það var aðalverkefni hans, að dreifa nýrri þýðingu á Nýja testamentinu til Íslendinga, sem hann og samstarfsmaður hans Paterson höfðu unnið að árunum á undan. Í einu Nýja testamentinu hefur Sr. Jón lærði ánafnað bókina sóknarbarni sem hafði skuldbundið sig til að lesa hana og koma með hana við prófastsvísitasíu, bæði til að bókin varðveittist vel og yrði lesin.

Henderson skrifaði ferðasögu sína. Þar eru heillandi frásagnir af því hvernig Íslendingar tóku við orðinu. Eins og þegar hann kom niður í Eyjafjörð og fólkið safnaðist í kringum hann og hann gaf þeim Nýja testamenti á þeirra máli svo það gæti lesið sjálft. Og fólkið lagði mikið á sig til að eignast bókina. Hann gaf Íslendingum góðan vitnisburð, hrifinn af landi og þjóð, sögu og menningu. Hann lýsti Íslendingum eins og þeirri góðu jörð sem tók við orðinu og bar ávöxt. Hvað átti Jesú við með því að góða jörðin bæri ávöxt? Hann var að tala um kærleikann sem sprettur upp af orðinu hjá fólki sem við því tekur. Það var einnig drifkrafturinn hjá þessum mönnum, brennandi mannúð, að vinna samferðafólki sínu gagn með því að boða trúna, vekja von, við erfiðar aðstæður, eins og voru þá í landinu. (Felix Ólafsson (1992): 116-117.)

Sr. Jón var ekki heima þegar Henderson kom í fyrri ferð sinni norður 1814 en þeir áttu tal saman á Akureyri. Andar þeirra mættust og fóru þeir að skrifast á. Næsta sumar 1815 kemur Henderson gagngert að heimsækja sr. Jón og áttu þeir innilegt og vekjandi samtal sem átti eftir að móta líf sr. Jóns sem var þá mörgum árum eldri en Henderson. Þeir ræddu um útbreiðslu Guðs ríkis víða um lönd sem var að gerast á þessum árum með nýjum hætti. (Sama rit: 119 og 183-188. Einnig Björn Jónsson (1965), Synoduserindi sem birtist í Eimreiðinni s.á.)

2.

Ekki hef ég borið saman Henderson og aðra erlenda ferðalanga á þessum tíma en þjálfun hans, undirbúningur og staða veitti honum sérstöðu sem átti eftir að verða afdrifarík fyrir kristni á Íslandi. Hann var á leið til Indlands til að starfa með William Carrey þeim fræga trúboða þar og mikla brautryðjanda. En Napóleonsstríðið kom í veg fyrir að Henderson komst lengra þegar breski flotinn réðust á Kaupmannahöfn 1807. Þangað var hann kominn og fór aldrei til Indlands. En í Kaupmannahöfn fór hann að starfa fyrir biblíufélagið. Hann var ásamt Paterson vini sínum og samstarfsmanni frumkvöðull að stofnun biblíufélaganna á Norðurlöndum. Þeir unnu að biblíuþýðingum og dreifingu á Guðs orði, bæði í austur – til Rússlands og í vestur – til Íslands. Það var sami brennandi áhugi og knúði William Carrey áfram til að þýða og gefa út Nýja testamentið og Biblíur á austrænum tungumálum. Í áðurnefndu bókasafni er lítill bæklingur með dæmi um þýðingu á versinu: „Sú þjóð sem í myrkri gengur sér mikið ljós“. (Matt. 4, 16). Það er með ýmsu letri, á kínversku, sanskrít og mörgum öðrum málum Indverja og Indónesíu. Trúboðið var að vinna að því að allar þjóðir fengju orð Guðs á sínu tungumáli og var Carrey í farabroddi í því starfi. Þessir menn voru fulltrúar fyrir alþjóðlega trúboðsvakningu sem óx og efldist með vaxandi félagsfrelsi og lýðræðisvakningu. Þeir voru að framkvæma stefnu siðbótarinnar að fólk fengi Guðs orð á eigin máli svo það gæti lesið sjálfum sér til uppbyggingar og trúarstyrkingar. (Felix Ólafsson (1992): 51-52.)

Timarit_babtista_1800.001

Áhrif Hendersons hér á landi tel ég að hafi ekki verið metin sem skyldi. Sigurður Nordal er með athyglisvert innskot í mannlýsingu Jóns Sigurðssonar sem hann kallar Úr launkofum. Hann telur að Henderson hafi með skrifum sínum vakið athygli á þjóðinni Norður í Atlandshafi þannig að menn fóru að virða menningu hennar og sögu, enda var Henderson sannkallaður „Íslandsvinur“. Hann nefndi t.d. einkadóttur sína Thuliu. Svo langt gengur Sigurður Norðdal í mati sínu að hann telur Henderson hafa lagt lóð á vogaskálar varðandi endurreisn Alþingis Íslendinga. (Sigurðar Nordal (1986): 26-27.) En augljósasta merki um starf hans var stofnun Hins íslenska biblíufélags sem hann átti frumkvæði að sumarið 1815, þann 10. júlí í tengslum við prestastefnu í Reykjavík. Þar náði hann saman framámönnum í samfélagi og kirkju. Frá fyrstu tíð var biskupinn formaður félagsins. Sú saga hefur verið skráð og má kynna sér á vef biblíufélagsins. (Felix Ólafsson (1992): 172-182.)

En í kjölfar þess starfaði biskup og guðfræðiprófessorar Prestaskólans margir hverjir í þýðingarnefndum og gáfu út biblíuþýðingar 19. aldar. Þannig náði orð Guðs að búa með fólkinu sem hin dýrmætasta perla og uppspretta trúar og vonar. Sveinbjörn Egilsson var einn þeirra sem starfaði við biblíuþýðingarnar svo dæmi sé tekið. Sá hinn sami sem lagði á varir okkar og hjarta jólasálminn: Heims um ból. Hann orðaði Guðs rödd. Þannig festist íslenskan í sessi sem mál helgihaldsins og kirkjunnar. Það skiptir máli að orða boðskapinn á íslensku eins og á hverju öðru máli þannig að hann nái til hjartans. Og það hefur Hið íslenska biblíufélag kappkostað að gera í tvö hundruð ár. Guðs sé þökk fyrir öll þau sem hafa lagt hönd á plóginn.

 3.

Eins og kunnugt er hafa Íslendingar rekið kristniboð í Eþíópíu um áratuga skeið. Ég var svo heppinn, vil ég segja, fyrir nokkrum árum að sinna Eþíópíumanni einn dag sem var í heimsókn á vegum kirkjunnar. Hann hafði tekið þátt í þýðingarstarfi í heimalandi sínu og að sjálfsögðu var biblíufélag að styðja þýðingarstarfið. Ég fór með hann hingað út eftir í Laufás. Við skoðuðum gamla bæinn sem kom honum kunnuglega fyrir sjónir, vanur að lifa svona nálægt moldinni. En þegar við komum út í kirkju og ég sýndi honum og sagði honum frá Guðbrandsbiblíu komst hann við að við skyldum fá Guðs orð á eigin tungumála fyrir mörgum öldum. Ég sé hann ennþá fyrir mér við bókina góðu. Hvers vegna er þetta orð svona mikilvægt?

Ástæðan er viskan sem Guðs orð veitir okkur. Nú er ekki lengur vitnað í orðið og sagt: „Drottinn segir“. Nú er tískan að þykjast skynsamur og segja: „Vísindin segja“. En skynsemin gefur okkur ekki visku, því að viskan er hjartans mál. Það er tungumál Biblíunnar ef menn vilja hlusta. Nú gæti ég rakið mig í gegnum rit biblíunnar og sýnt fram á viskuna sem felst í því orði. En eitt dæmi ætla ég að láta duga sem er fyrir augum ykkar.

Efst í horninu vinstra megin og neðst hægra megin eru frummyndir eftir Carl Bloch. Myndin í miðjunni er eftir Sveinunga Sveinungason, altaristafla á Þórshöfn. Vinstra megin neðst, altaristafla Grenjaðarstaðarkirkju, og efst hægra megin, altarsitaflan í Grenivíkurkirkju.

Efst í horninu vinstra megin og neðst hægra megin eru frummyndir eftir Carl Bloch. Myndin í miðjunni er eftir Sveinunga Sveinungason, altaristafla á Þórshöfn. Vinstra megin neðst, altaristafla Grenjaðarstaðarkirkju, og efst hægra megin, altarsitaflan í Grenivíkurkirkju.

Altaristaflan ykkar er eftirmynd af töflu danska málarans Carl Bloch. Myndin túlkar orð Jesú: „Komið til mín öll þið sem erfiðið og þunga eru hlaðin, og ég mun veita ykkur hvíld“. (Matt. 11, 28). Hvað segja þessi orð? Hvað boðar myndin? Þá lífsspeki að svona er Guð þinn sem vill mæla sér mót við þig, vill ná eyrum þínum, til að gera þér gott, blessa þig og vera þér samferða í lífinu. Hann þekkir þig með nafni. Þú getur verið konan sem grætur, gamli maðurinn eða barnið. Þú þekkir það sem er erfitt í þínu lífi, það sem íþyngir þér. Guð þekkir líka. Það mátt þú koma með til Jesú. Þar átt þú mót við Guð sem elskar þig eins og værir þú hans einasta barn. Lífsspeki þessi kennir þér svo, að það áttu ekki einn út af fyrir þig, heldur með öllum hópnum, með öllum mönnum, þegar þú biður og við með þér: Faðir vor. Þannig skapast samfélag sem lætur sér annt um náungann, lætur það vera leiðarljós sitt, þó að það sé ef til vill ekki skynsamlegt, né fjárhagslega hagkvæmt. Það er kristileg mannúð.

Þetta er viska Biblíunnar sem við megum til að varðveita og við sem kirkja berum þá ábyrgð að miðla áfram þeim fjársjóði, perlunni, uppsprettunni, sem við höfum lifað við: Hlustaði á orðið svo ávöxt berir þú.

Dýrð sér Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Grein eftir Sr. Guðmund Guðmundsson