Næsta sunnudag kl. 10 verður fræðslumorgun í Seltjarnarneskirkju í tilefni af 200 ára afmælis Biblíufélagsins en þá mun Margrét Bóasdóttir, verkefnisstjóri kirkjutónlistar, flytja og fjalla um efnið Biblían og tónlistin. Margrét lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og lauk konsertprófi í einsöng frá tónlistarháskólanum í Heidelberg-Mannheim í Þýskalandi og sérnámi í ljóða- og óratóríusöng frá tónlistarháskólanum í Stuttgart. Hún lauk MBA prófi frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hefur víðtæka reynslu af kórstjórn, stjórn menningarviðburða og útgáfu kirkjutónlistar og hefur starfað um árabil innan þjóðkirkjunnar, m.a. hjá embætti söngmálastjóra við raddþjálfun kirkjukóra og endurmenntun kórstjóra. Hún hefur einnig kennt við Guðfræðideild Háskóla Íslands.
Fræðslu- og umræðukvöld í Glerárkirkju hefjast miðvikudaginn 11. febrúar kl. 20-22. Þau eru í samstarfi við Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.
Á heimasíðu Glerárkirkju stendur meðal annars:
Fyrirlestraröð í tilefni af 200 ára afmælis Hins íslenska biblíufélags þar sem fjallað verður um áhrif Biblíunnar á menningu og samfélag.
Dr. Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í Gamla testamentinu mun fjalla um áhrif Davíðssálma á íslenska menningu. Nýútkomin er bók eftir hann um efnið Áhrifasaga Saltarans, þar sem hann ritskýrir Davíðssálma og rekur áhrif þeirra á íslenska menningu sérstaklega.
Þá mun sr. Gunnlaugur Garðarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju fjalla um biblíustef kvikmyndum og kvikmyndina The Mission(1986).
Dr. Sigurður Pálsson, helsti sérfræðingur í námskrá kristindóms – og trúarbragðafræðslu í skólum, fjallar um stöðu þeirra mála í dag og það ögrandi verkefni fyrir bæði kirkju og skóla. Með þessari dagskrá viljum við sem að þessu stöndum skapa umræðu í samfélaginu um þýðingu Biblíunnar fyrir íslenska menningu.

Biblíufélagið hvetur fólk til að mæta!