Næsta sunnudag, 8. febrúar er biblíudagurinn. Það er dagur sem er sérstaklega helgaður Biblíunni.
Þá minnumst við allra þeirra sem hafa á undan okkur unnið að útbreiðslu Biblíunnar. Við minnumst þeirra sem voru frumkvöðlar og þeirra sem tóku síðan við og héldu áfram af hugsjón og í trú að vinna að útgáfu og lestri Biblíunnar.
Með útgáfu Biblíunnar og útbreiðslu hennar stendur og fellur öll kristin boðun og áhrif kristindómsins. Kristin trú og kristin lífsviðhorf hafa haft gríðarleg áhrif á sögu og menningu okkar Íslendinga sem og annarra vestrænna þjóða. Bókmenntir, tónlist, myndlist; alls staðar í menningu okkar sjáum við sterkar skírskotanir í boðskap og frásögur Biblíunnar. Áhrifin eru augljós og sköpunarkrafturinn gríðarlegur. Biblían er grundvöllur kristinnar trúar og okkar kristnu arfleifðar. Biblían miðlar kærleika og umhyggju Guðs og því hve miklu máli samfylgd við Hann skiptir í daglegu lífi.
Á Biblíudaginn þökkum við fyrir Biblíuna okkar og um leið tökum við þátt í að styðja aðra til að þeir geti haft greiðan aðgang að henni. Á 200 ára afmæli Biblíufélagsins er ætlunin að safna fyrir Biblíum til Kúbu, en þar í landi er mikill skortur á Biblíum. Á Kúbu hefur fjöldi kristins fólks tvöfaldast á tíu árum. Aðstæðum þar er best lýst með þeim hætti, að kirkjurnar þar eru fullar af fólki, en Biblíurnar vantar.
Það eru engar bókabúðir til sem selja Biblíur þar. Öll dreifing á Biblíunni fer fram í gegnum Biblíufélagið á Kúbu, en það hefur því miður engin tök á því að útvega nógu margar Biblíur fyrir landsmenn. Biblíufélagið er algjörlega háð því að kristið fólk í öðrum löndum borgi fyrir prentun og sendingu á Biblíum til Kúbu.
Mörg biblíufélög taka nú þátt í því verkefni að senda eina milljón Biblía til Kúbu.
Við Íslendingar búum við þau forréttindi að geta með fremur einföldum hætti gengið að boðskap Biblíunnar og eignast hana. Á biblíudaginn getum við lagt okkar af mörkum til þess að kristið fólk á Kúbu geti fengið sína heitustu ósk uppfyllta — að það eignist sína eigin Biblíu.
Ef þú vilt styðja við það verkefni þá er reiknisnúmerið
0101 26 3555 og kt. 620169-7739
Fjölbreytt dagskrá á Biblíudaginn!
Útvarpsguðsþjónusta verður frá Dómkirkjunni en þar mun biskup Íslands frú Agnes M. Sigurðardóttir prédika en hún er forseti Biblíufélagsins. Í öllum kirkjum landins verða guðsþjónustur þar sem Biblían er kynnt með fjölbreyttum hætti. Meðal annars verður fræðslumorgunn kl. 10 í Seltjarnarneskirkju þar sem Margrét Bóasdóttir fjallar um Biblíuna í tali og tónum, þar verður líka Biblíumaraþon frá 14-17. Í Bústaðakirkju kl. 14 er bíómessa þar sem fjallað verður um Guð á hvíta tjaldinu og í Biblíunni.
Verið innilega velkomin!