Konan mín er afskaplega hreinlát manneskja og leggur mikið upp úr því að íbúð okkar sé snyrtileg og vel þrifin. Þetta segi ég henni til hróss, enda mikill kostur. Sjálfur er ég á hinn bóginn einkar latur til margra verka, þar á meðal þrifa. Oft er því leiðin að skúringafötunni æði löng hjá mér. En það verður að viðurkennast, að sú athöfn í sjálfri sér að skúra gólfin getur með réttu hugarfari orðið bæði róandi og gefandi. Mestu skiptir auðvitað afrakstur erfiðisins, að eiga hreina og snyrtilega íbúð.

Það má eiginlega líkja því við andlegar hreingerningar að opna Biblíuna sína og lesa í henni. Hjá flestum okkar er leiðin að biblíulestrinum býsna löng og þröskuldurinn jafnvel óyfirstíganlegur. Hvar á að bera niður og hvernig á að stauta sig í gegnum þessa gömlu skræðu? Flestir sem hafa gefið sig að lestri Biblíunnar vitna hins vegar um að sú athöfn geti í rauninni orðið bæði gefandi og nærandi. Og afrakstur erfiðisins skiptir mestu, nefnilega sá að skilja betur Guð, kærleika hans og áform hans með okkur mennina. Og ekki má gleyma, að sá sem er vel lesinn í Biblíunni skilur betur fjölmargar tilvísanir í bókmenntum, kvikmyndum og jafnvel í þjóðfélagsumræðunni.

Margt er vissulega torskilið í þessari mestu metsölubók heims. Og kristinn maður skyldi aðeins lesa Gamla testamentið sem fyrri hluta bókar, sem ekki verður skilin til fulls án þess síðari – Nýja testamentisins. En umfram allt er Biblían lykillinn að orði lífsins, sem er Jesús Kristur. Látum þann lykil ekki rykfalla uppi í bókahillum!

Sr. Þorgeir Arason