Biblíudaginn er 2. sunnudagur í níuviknaföstu (sexagesima) og ber upp á sunnudaginn 8. febrúar í ár. Á 200 ára afmæli Biblíufélagsins ætlum við að beina sjónum okkar að Kúbu, en þar í landi er mikill skortur á Biblíum. Á Kúbu hefur fjöldi kristins fólks tvöfaldast á tíu árum. Aðstæðum þar er best lýst með þeim hætti, að kirkjurnar þar eru fullar af fólki, en Biblíurnar vantar.

Það eru engar bókabúðir til sem selja Biblíur þar. Öll dreifing á Biblíunni fer fram í gegnum Biblíufélagið á Kúbu, en það hefur því miður engin tök á því að útvega nógu margar Biblíur fyrir landsmenn. Biblíufélagið er algjörlega háð því að kristið fólk í öðrum löndum borgi fyrir prentun og sendingu á Biblíum til Kúbu.

Mörg biblíufélög taka nú þátt í því verkefni að senda eina milljón Biblía til Kúbu.

Við Íslendingar búum við þau forréttindi að geta með fremur einföldum hætti gengið að boðskap Biblíunnar og eignast hana. Á biblíudaginn getum við lagt okkar af mörkum til þess að kristið fólk á Kúbu geti fengið sína heitustu ósk uppfyllta — að það eignist sína eigin Biblíu.