Biblíumaraþon helgina 24.-25. janúar 2015
Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga efnir til árlegrar bænaviku dagana 18.-25. janúar 2015. Í lok þeirrar viku, helgina 24.-25. janúar verður efnt til Biblíumaraþons, þar sem fólk kemur saman til „maraþonlesturs“ þar sem Biblían, eða hlutar hennar verða lesnir í heyranda hljóði af safnaðarfólki, ungum og eldri.
Markmiðið er að allar kirkjur og söfnuðir landsins kalli fólk saman til að lesa úr ritningunni og að hver kirkja hvetji sinn söfnuð til þátttöku. Gert er ráð fyrir að prestar og annað starfsfólk safnaðanna útfæri maraþonið, hvernig þeim þyki best að skipuleggja viðburðinn. Hugmyndin er sú, að þessa helgi hjómi ritningartextar í öllum kirkjum og kristnum söfnuðum landsins til að minna okkur á mikilvægi Biblíunnar og að 200 ára afmælisár Biblíufélagsins er hafið. Það skiptir ekki máli hvort útfærslan sé samvera sem varir í marga klukkutíma eða samvera sem einungis varir í 30 mínútur. Aðalatriðið er að vera með í Biblíumaraþoninu og vekja þannig athygli á Biblíunni okkar.
Biblíufélagið hvetur söfnuði landsins að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni!