Afmælisár Hins íslenska biblíufélags 2015 hófst formlega í fyrstu viku janúar er sr. Karl Sigurbjörnsson biskup og fyrrverandi forseti félagsins flutti fyrstu hugleiðingu sína af þrettán í tilefni afmælisársins. Hugleiðingarnar verða allar fluttar á útvarpsstöðinni Lindinni á eftirfarandi tímum:
Sunnudagar kl. 9:40
Miðvikudagar kl. 9:20
Föstudagar kl. 18:20
Laugardagar kl. 18:40
Allt árið verða fluttir þættir frá Biblíufélaginu á Lindinni og kann stjórn félagsins útvarpsstjórum Lindarinnar bestu þakkir fyrir.
Útsendingar Lindarinnar ná til 90% þjóðarinnar á mismunandi bylgjulengdum sem finna má upplýsingar um á http://lindin.is
Greinar í dagblöðum
Í hverjum mánuði ársins 2015 munu birtast greinar í dagblöðum eftir ýmsa höfunda til að vekja athygli á Biblíunni og þeim áhrifum sem hún hefur haft á líf fólks og hefur enn. Greinarnar verða einnig birtar á heimasíðu félagsins. Í janúar skrifuðu biskup Íslands, sr. Agnes M. Sigurðardóttir sem jafnframt er forseti félagsins og Ragnhildur Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri greinar í Morgunblaðið og Fréttablaðið.
Biblíumaraþon helgina 24.-25. janúar 2015
Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga efnir til árlegrar bænaviku dagana 18.-25. janúar 2015. Í lok þeirrar viku, helgina 24.-25. janúar verður efnt til Biblíumaraþons, þar sem fólk kemur saman til „maraþonlesturs“ þar sem Biblían, eða hlutar hennar verða lesnir í heyranda hljóði af safnaðarfólki, ungum og eldri.
Útgáfufagnaður
Útgáfufagnaður í tilefni af útgáfu bókarinnar Áhrifasaga Saltarans eftir Gunnlaug A Jónsson prófessor verður haldinn fimmtudaginn 15. janúar kl.17 í Seltjarnarneskirkju. Þar mun Gunnlaugur segja frá tilurð bókarinnar, Grétar Halldór Gunnarsson fjallar um bókina og tónlist flytja Friðrik Vignir Stefánsson og Eygló Rúnarsdóttir. Ólafur Egilsson stjórnar athöfninni. Hægt verður að kaupa bókina á tilboðsverði þar.

Á afmælisárinu eru áformaðir fjölbreyttir viðburðir sem verða nánar auglýstir síðar. Þar verður lögð áhersla á tilgang og starf félagsins.  Félagið hvetur fólk til að fylgjast vel með afmælisári Biblíufélagsins og taka virkan þátt í viðburðunum.