Eysteinn G. Gíslason (Eysteinn í Skáleyjum) orti jólasálm sem hann kallar Maríusonur við eitt vinsælasta jólalag allra tíma Mary’s Boy Child sem er líklega þekktast í flutningi Boney M. árið 1978. Lagið samdi Jester Hairston árið 1956 og síðan þá hafa margir listamenn flutt það eins og t.d. Nat King Cole, Roger Whittaker, Tom Jones, John Denver og fleiri.
Maríusonur
Það hugljúfa orð og ævintýr
skal ennþá mönnum sagt:
Á fyrstu jólum jötu í
var Jesúbarnið lagt.
En stjarnan björt af himni hátt
á helgri nóttu skein,
hún lýsti yfir lágan stall
og lítinn mömmusvein.
Fjármönnum englar fluttu boð
um fæðing lausnarans,
og hirðar bljúgir beygðu kné
í bæn við jötu hans.
Þeir heyrðu óma englasöng
í ást og þakkargjörð,
um dýrð Guðs föður, frelsun heims
og frið um alla jörð.
Maríubarn, við biðjum þess,
þú birtist enn á ný.
Það skortir víða frelsi, frið
og fögnuð veröld í.
Um stillta nótt er stjarna skín
á stofugluggann minn,
ég krýp á jólum, Jesúbarn,
við jötustokkinn þinn.
Hið íslenska biblíufélag óskar félagsfólki og velunnurum félagsins gleðilegra jóla. Megi gleði og fögnuður jólanna fylgja ykkur á nýju ári.
Skrifstofa Híb verður lokuð til mánudagsins 29. desember og opnar eftir áramót mánudaginn 5.janúar.
Gleðileg jól!