Eftir sr. Maríu Ágústsdóttur
Í nánd jóla finnum við kyrrð færast yfir, helgin nálgast, tíminn sem kristið fólk hefur tekið frá til að halda upp á fæðingu frelsarans. Í kyrrðinni býr heilög gleði sem er, eins og friður Guðs, æðri öllum skilningi (Fil. 4.7). Uppspretta gleðinnar er nálægð Guðs, nærvera hans sem kom með dag á dimma jörð, Jesú Krists, frelsara okkar, sem Sigurbjörn Einarsson yrkir um í sálminum Kom þú, kom vor Immanúel, en Immanúel þýðir einmitt „Guð með oss“ (Jes 7.14, Matt 1.23).
Við lesum í Jóhannesarguðspjalli hvernig samtímamaður Jesú og frændi, Jóhannes skírari Sakaría- og Elísabetarson (sbr. Lúk 1.57-80), skynjaði þessa helgu gleði sem stafaði frá Jesú Kristi, brúðgumanum: „Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka“ (Jóh 3.29-30). Þessi gleði er nú mín að fullu. Markmið Jóhannesar skírara var ekki að upphefja sjálfan sig heldur benda á Guð í Jesú Kristi. Það var æðsta takmark hans og gleði. Þess vegna sagðist hann líka vilja minnka í sjálfum sér en vaxa í Guði, mikla Guð en ekki sjálfan sig í sínum mannlega veikleika. Þaðan sprettur gleði hans.
Og það er þetta sem Biblían miðlar til okkar, veruleiki Heilagrar ritningar í heild. Okkar takmarkaða mannlega sýn dregur okkur iðulega niður og kemur í veg fyrir að við njótum fullrar gleði. En með því að leyfa hugarheimi Biblíunnar, þeim veruleika sem hún birtir og mætti nefna nálægð Guðs, að vaxa í okkur vex að sama skapi gleðin í lífi okkar. Þetta er okkar sameiginlega arfleifð, kristinna kirkna. Þessi boðskapur er það sem tengir saman fólk í sögu og samtíð og er grundvöllur vestrænnar menningar. Megir þú, kæri biblíuunnandi, finna þessa gleði skírarans í nánd frelsarans. Megi hún verða þín að fullu. Gleðilega hátíð.