Ragnar Ingi Aðalsteinsson fæddist 1944. Hann er yngstur tíu barna þeirra Ingibjargar Jónsdóttur og Aðalsteins Jónssonar, sem bjuggu á Vaðbrekku frá 1922 til 1971.
Ragnar ólst upp í Vaðbrekku í Hrafnkelsdal en fluttist til Reykjavíkur árið 1970. Árið 1982 lauk hann réttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands og meistaragráðu í kennslufræðum frá sama skóla árið 2000. Árið 2004 lauk hann meistaragráðu í íslenskum fræðum frá Háskóla Íslands og lauk doktorsritgerð sinni haustið 2010. Hann starfaði sem kennari og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ragnar hefur fengist við ritstörf og ljóðagerð.

Aðventuljóð

Í myrkrinu aðventuljósin loga
sem lýsandi bæn um grið.
Þessi veröld er full af skammdegisskuggum
það skortir á gleði og frið.
Það er margt sem vakir í vitund okkar
sem við höfum þráð og misst.
Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun
að hugsa um Jesú Krist.

Við lifum á uppgangs- og umbrotatíð
þar sem allt á að gerast strax.
Og andlegir sjóðir eyðast og glatast
í erli hins rúmhelga dags.
En samt er ein minning sem brennur svo björt
eins og brosandi morgunsól
um hann sem var sendur frá góðum Guði
og gaf okkur þessi jól.

Og jólin nálgast í hverju húsi
og hjarta hvers trúaðs manns.
Það er eins og við fáum andartakshvíld
á afmælisdaginn hans.
En eitt er það þó er í sál minni svíður
sárt eins og þyrnikrans
að mennirnir halda markaðshátíð
í minningu Frelsarans.

Hann boðaði hamingju, frið og frelsi
og fögnuð í hverri sál.
Hann kenndi um guðdóminn, kraftinn og ljósið
og kærleikans tungumál.
Og samt eru jólin hjá sumum haldin
í svartnættismyrkri og kvöl,
í skugga eymdar og ofbeldisverka
við örvænting, skort og böl.

Við lifum í dimmum og hörðum heimi
með hungur, fátækt og neyð
þar sem einn er að farast úr ofáti og drykkju
en annar sveltur um leið
þar sem einn er þjakaður andlegu böli
en annar ber líkamleg sár.
Og samt hefur lausnin frá þjáning og þraut
verið þekkt í tvö þúsund ár.

Og þrátt fyrir mannkynsins mistök og syndir
og myrkvuðu tímabil
og þrátt fyrir allt sen hann þurfti að líða
að þjást hér og finna til
hann bíður samt ennþá með opinn faðm
þar sem alltaf er skjól og hlíf
og biður um meiri mátt til að gefa
mönnunum eilíft líf.

Í myrkrinu aðventuljósin loga
sem lýsandi himnesk rós
Ógnþrungnir skammdegisskuggar víkja
við skínandi kertaljós.
Á jörðinni fölskvast hin andlegu efni
og oft er hér þungbær vist.
Þá er sálinni styrkur og hjartanu huggun
að hugsa um Jesú Krist.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson.