Kæri lesandi.
Aðventan er töfrandi tími hlaðinn spennu, tilhlökkun og tilfinningum. Væntingarnar rísa og vonin í hjarta okkar einnig. Vonin er hjartanu holl en væntingarnar varhugaverðar. Það er nefnilega tvennt ólíkt að vera með væntingar eða von í hjarta. Við getum brennt okkur á því alla ævi hvernig hlutirnir fara ekki eins og við viljum eða sjáum fyrir okkur. Hvernig fólk bregst við okkur eða gerir hluti sem við erum ekki ánægð með. Við berum væntingar til fólks allan liðlangan daginn þó svo það komi okkur oft illa. Fólk veldur vonbrigðum. Nei, við verðum fyrir vonbrigðum af eigin hendi út frá væntingum okkar. Fólk bregst við á annan hátt en við vildum, gaf okkur jólagjöf sem hitti ekki í mark, sumir gefa okkur ekki einu sinni jólagjöf og sumir taka út á manni hvernig þeim líður. Við erum oft með fyrirfram ákveðna hugmynd um það hvernig fólk ætti að vera og hvaða ákvarðanir það ætti að taka. Væntingar geta verið til ama og tært andann. Vonin eflir, græðir og fyllir hjartað. Geymum væntingarnar um jólin. Minnum okkur á að Jesús er jólin alla daga til að gleyma ekki tilgangi jólanna. Hristu af þér ónot fólks sem kemur ekki nógu vel fram við þig og gakktu hnarreist/ur. Láttu það ekki trufla þig þó eina kökusortin sem þú ætlaðir að baka hafi brunnið. Vonin er blíð og leynir á sér því hún er feiknasterk og getur lifað af allt heimsins mótlæti. Eflum vonina í hjarta okkar sem fæðing Jesú gaf okkur. Mitt í mótlætinu kom hann í heiminn með loforð. Hann er það loforð sem glæðir eld vonarinnar í hjarta okkar. Tökum niður væntingar okkar og látum þær ekki trufla gleði vonarinnar sem Jesús gefur. Jesús er og verður alltaf jólin.
Guð gefi okkur gleðileg jól
Sunna Kristrún Gunnlaugsdóttir djákni í Glerárkirkju