Biskup Íslands hefur skipað dr. Sigurð Árna Þórðarson í embætti sóknarprests Hallgrímsprestakalls í Reykjavík og sr. Irmu Sjöfn Óskarsdóttur í embætti prests í Hallgrímsprestakalli. Söfnuður séra Sigurðar Árna í Neskirkju, naut góðs af áhuga hans á eldamennsku og svokölluðum biblíumat. Þar reiddi hann fram ýmsar krásir og stóð fyrir námskeiðum um Biblíumat. Ætla má að áframhald verði á námskeiðum um Biblíumat, föstur og fleira áhugavert þegar Sigurður Árni gegnir embætti sóknarprests í Hallgrímskirkju.
Sr. Sigurður Árni segir aðventuna í raun mun annasamari tíma hjá prestum en jólin sjálf. Lögð sé áhersla á það í kirkjusögunni að nota aðventuna sem andlegan undirbúningstíma og í því samhengi verði sér hugsað til íslensku jólasveinanna. „Þeir eru eiginlega kennsludæmi um það sem getur orðið til þess að eyðileggja fyrir fólki. Þeir taka frá fólki matinn, skemma svefnfrið, hrekkja, sækja að skepnunum sem eru atvinnuvegirnir og að lokum reyna þeir, þegar jólin eru að skella á, að stela ljósinu úr húsinu sem er náttúrlega tákn um lífið. Því held ég að það sé mjög hentugt fyrir okkur að velta vöngum yfir því hverjir eru jólasveinarnir í okkar lífi núna. Eru það bara utanaðkomandi þættir sem hafa árhif á okkur eða getur verið að eitthvað af jólasveinunum búi innra með okkur?“ segir Sigurður Árni.

,,Jólin eru okkar stóra þakkargerðarhátíð og tilefnið er himingjöfin besta. Ekkert annað en góður matur hæfir. Uppskriftin er ætluð átta manns og Sigurður Árni fékk hana úr gömlu jólablaði Morgunblaðsins. „Það er ljómandi að eiga afgang á jóladag og svo er hráefnið gott í böku. Hafið hugann við eldamennskuna, en beikonvafningurinn gerir gott hráefni að dásamlegum kosti. Athugið að byrja þarf á matreiðslunni snemma á aðfangadegi, vegna langs steikingartíma.“
Jólakalkúnninn okkar
4-5 kg kalkúnn
3 hnefafylli af ferskum sveppum
½ hvítlaukur pressaður
2 stilkar sellerí
250 g beikon til sneiðingar + 3-4 Bréf til klæðingar
5 sneiðar brauð
2 msk estragon
200 g rjómaostur
½ tsk salt
Aðferð: Beikonið, u.þ.b. 250 g, er sneitt og látið krauma í potti. Skornu selleríi er bætt út í, þá sveppum og síðast hvítlauknum, 1 msk estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgóð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð og lögð til hliðar.
Kalkúnninn er hreinsaður og innmatur settur í vatn með pipar, salti, 1 msk estragon og beikonflísum, og allt soðið saman. Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu. Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir eru einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200°C heitan ofn og hitinn lækkaður eftir 10 mínútur í 180°C. Ekki spara beikonið, flestum finnst stökkt beikon gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló. Til að athuga hvort fuglinn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær er kalkúnninn nægilega steiktur. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

,,Waldorfsalat er nauðsyn! Epli, sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínúturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni“ segir Sigurður Árni.

Kalkúnninn er síðan tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Innmatur er tekinn úr vatninu og vatninu hellt í soðið í ofnskúffuna, skafið bragðgjafana upp úr plötunni. Öllu hellt í pott gegnum sigti og fita fleytt ofan af. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma og ef til vill lögg af rauðvíni. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir.

„Á mínu heimili býr glatt veislufólk. Lífið er rétt og gott þegar það segir: Þetta er nú það besta sem ég hef smakkað. Ekki reyni ég lengur að spyrja hvort það sé besti matur í heimi eða besta uppskriftin. Þegar hráefnið er gott, kryddað með kærleika og alúð, svíkur þetta ekki. Þessi uppskrift af andabringu var veidd af blogginu og er orðin jólamatur á nokkrum heimilum.“
Andabringa snöggsteikt
Miðað er við að uppskriftin sé fyrir fjóra.
800 g andabringur
Ristið krossa í fituna á bringunni og nuddið salti, pipar og möluðum einiberjum í skurðina. Steikið bringurnar á þurri pönnu með fituhliðina niður og steikið þar til skorpan harðnar. Snúið síðan við, steikið stutt, en þó þannig að hinni hliðinni sé lokað. Steikið síðan í ofni 12-15 mínútur þar til kjarninn er liðlega 60°C.
,,Síðan er það sósan góða sem passar afar vel við.

3 dl anda- eða kalkúnasoð
2 dl rauðvín (hægt að nota púrt)
1 msk balsamedik
Safi úr 2 appelsínum
Safi úr 2 límónuávöxtum
Safi úr 1 sítrónu
2 dl kókosmjólk eða eftir smekk
½ msk engifersulta, skv. smekk
Sigurður Árni notar gjarnan rifs- eða sólberjasultu til að sæta sósuna og jafna.
Aðferð: Sjóðið allt niður um þriðjung og þykkið svo eftir smekk. Í sósuna má setja í lokin 1 msk af köldu smjöri til að fá gljáa. Þessa anda- og sósuuppskrift fékk Sigurður Árni úr Matreiðslumeistara MasterCard, sem út kom fyrir jólin 2004, en breytti uppskriftinni að eigin smekk!
Rótargrænmeti
1,5 kg rótarávextir, t.d. steinseljurætur
5 rauðbeður, skornar langsum
2 sætar kartöflur
Litlar kartöflur, skornar í tvennt
Gulrætur, langskornar
Hvítlaukur, heill, grófrifinn
Lögur á rótargrænmeti
4 msk ólífuolía
½ msk balsamedik
½ tsk þurrkað rósmarín
Maldonsalt
Svartur pipar, grófmalaður
Bakað í ofni í 40-60 mínútur.

Biblíufélagið óskar Dr. Sigurði Árna innilega til hamingju með embættið og Guðs blessunar í starfi.