Hvernig er sú tilfinning að ganga um iðandi stræti stórborgar í algjöru myrkri? Hvernig getur fólk borðað á fínum veitingastað þegar það getur ekki séð diskinn?
Flestir hugsa lítið um þá erfiðleika sem blint og sjónskert fólk þarf daglega að takast á við. En Biblíufélagið í Costa Rica vill vekja athygli á því hvernig það er að lifa sem blindur.
“Það eru 26,000 blindir og sjónskertir í Costa Rica. Þeir upplifa hindranir í sínu lífi sem þeir þurfa að takast á við. Biblían kennir okkur að hugsa um náungann og sýna hvert öðru umhyggju og kærleika. Þess vegna viljum við þjóna náunga okkar, m.a. blindum einstaklingum og fjölskyldum þeirra og vekja athygli á aðstæðum þeirra” segir Mayra Ugalde, framkvæmdastjóri Biblíufélagsins í Costa Rica.
Eitt af þeim verkefnum sem Biblíufélagið stóð fyrir var að safna saman 40 nemum og leiða þá í gegnum borgina með bundið fyrir augun, með leiðsögn frá blindum einstaklingi. Þessi gjörningur vakti mikla athygli fólks í borginni.
“Nemarnir gengu í röð, þau gengu öll með bundið fyrir augun fyrir aftan leiðsögumanninn og héldu hvert í annað” lýsir Mayra. “Þau gengu hikandi fyrst og voru dauðhrædd. Þau veltu því fyrir sér hvernig blint fólk færi að þegar það þyrfti að ganga yfir götur. En leiðsögumaðurinn kenndi þeim hvaða hljóðum þau ættu að hlusta eftir og hvernig þau ættu að átta sig á staðháttum og umhverfi þegar þau gengu eftir aðalgötunni. Í lok þessarar upplifunar tjáði unga fólkið sig um hvernig þau hefðu upplifað borgina á nýjan hátt, með því að “sjá” og “finna” borgina. Þau sögðu einnig að þau hefðu nú gert sér grein fyrir á áþreifanlegan hátt hvernig það er að lifa sem blind manneskja”
“Matur í myrkri” var annað verkefni sem Biblíufélagið í Costa Rica stóð fyrir. Það hafði svipuð áhrif á þátttakendur. Matur var borinn fram í algjörlega myrkvuðu herbergi.
“Við notuðum svartar servíettur, svartan borðbúnað, allt var svart” sagði Mayra. “Við báðum fólk að koma í dökkum fötum og með slökkt á farsímum. Þjónustufólk leiddi hverja persónu til sætis í algjöru myrkri og hjálpaði henni að finna diskinn sinn með höndunum. Síðan var borinn fram matur. Þegar matartímanum lauk, var kveikt á ljósunum aftur og þá var fólki mjög brugðið. Á matarborðinu var allt út um allt. Mikið hafði sullast niður og fólk hafði átt erfitt með að sækja sér mat á diskana sína. Þau tjáðu sig öll um það að mikið hlyti að vera erfitt að vera blindur og fara út að borða á veitingastað”
Margir þátttakendurnir sögðust hafa lært mikið af þessu verkefni, m.a. að nota meira skynfærin.
“Ég uppgötvaði að ég nota ekki skynfæri mín eins mikið og ég ætti að gera. Ég smakka ekki, ilma ekki af matnum og hlusta ekki af athygli vegna þess að ég sé og nota augun mín. Það er hægt að nota skynfærin miklu betur. Það var dýrmæt lexía fyrir mig og það lærði ég af þessu verkefni” sagði presturinn José Garmendia.
“Ég var hissa hvað mér tókst að virkja önnur skilningarvit en þau sem ég venjulega nota” sagði listamaðurinn og arkitektinn Franchesco Bracci. “’Eg var mest hissa á lyktinni, hvað mikill ilmur dansaði um herbergið. Það er ótrúlegt hvað manneskjan getur skynjað á þennan hátt”.