Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð.
Jer. 29:11
Ég fór að íhuga þessi orð Jeremía spámanns þegar ég sat í vinnustöðu minni í flugstjórnarmiðstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Allan morguninn hafði ég verið að gefa flugvélum heimild á flugvelli víðs vegar í heiminum. Flugmennirnir höfðu sent inn flugplan með ósk um flugleið en engin vél fékk að fljúga á áfangastað án þess að fá heimild frá mér fyrst.
Stundum finnst okkur að lífið væri mikið auðveldara ef það virkaði svona. Við legðum inn óskir um það sem við vildum gera og svo myndum við bíða róleg eftir heimild frá Drottni. En sem betur fer skapaði Guð okkur ekki sem hlýðin vélmenni heldur gaf okkur frjálsan vilja, frelsi til þess að taka okkar eigin ákvarðanir. Við getum valið að fylgja orði Drottins og lifa í samræmi við orð hans og við getum valið að gera það ekki. Flest gerum við okkar besta að fylgja boðum hans þó okkur mistakist öðru hvoru. Þá er gott að viðurkenna mistökin og læra af þeim.
Þegar ég horfi til baka á þau 32 ár sem eru liðin síðan ég fæddist átta ég mig á því hvað lífið hefur boðið upp á ótrúlega mörg smáatriði sem stýrðu svo framhaldinu. Það er lygilega oft þannig að örlitlar breytingar hefðu haft þau áhrif að líf mitt hefði tekið allt aðra stefnu en það svo raunverulega gerði.
Eitt dæmi er þegar ég kynntist eiginkonu minni í Vatnaskógi. Ég fékk lánaðan flutningabíl og var að skila dýnum sem höfðu verið notaðar á norrænu kristilegu stúdentamóti. Ég fór fyrir tilviljun inn í matskálann í Vatnaskógi og datt þar á spjall við stelpurnar í eldhúsinu sem ég hafði þó varla hitt áður. Það var í framhaldinu af þessu spjalli sem við kynntumst og hófum síðar búskap. Ímyndaðu þér hvað litlu hefði þurft að breyta til þess að við hefðum ekki kynnst. Ef ég hefði t.d. verið fyrr eða seinna á ferðinni. Ef þær vinkonur hefðu lagt sig seinni partinn eins og þær voru vanar. Ef… ef…
Dæmin eru fjölmörg.
Já það er engu líkara en Drottinn sjálfur hafi stýrt ferðinni og því hef ég alveg sérstakt dálæti á þessu versi úr Jeremía þar sem Drottinn segir mér að hann þekki þær fyrirætlanir sem hann hefur í hyggju með mig, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, til þess að veita mér vonarríka framtíð.
Ég hef frjálsan vilja og get tekið ákvarðanir um líf mitt. En ég er þakklátur að mega leggja líf mitt í hendur Drottins og treysta honum. Í öllu því sem framundan er get ég gengið öruggur með Drottni með þá fullvissu að hann veit hvað hann ætlar mér.
Guðmundur Karl Einarsson, flugumferðarstjóri.