Lýðveldið Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki eftir að hafa lýst yfir sjálfstæði frá Súdan í júlí 2011. Landið er mjög fátækt eftir margra ára borgarastyrjöld, þúsundir hafa fallið í átökunum og 1, 2 milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Suður- Súdan kom fram að stríðandi fylkingar hefðu framið skipulögð ódæðisverk á heimilum, sjúkrahúsum og í kirkjum.

Biblíufélagið í Suður – Súdan hefur markvisst unnið að útbreiðslu Biblíunnar í landinu og stuðlað að fræðslu um boðskap kristinnar trúar. Settar hafa verið upp miðstöðvar víðs vegar um landið þar sem boðið er upp á fræðslu og áfallahjálp.

,,Fræðslan hefur náð að snerta við hjarta mínu- sérstaklega Sálmur 34:18 ,, Þegar réttlátir hrópa heyrir Drottinn, hann bjargar þeim úr öllum nauðum þeirra“ segir Monica Nakemis en hún er ein af þeim fjölmörgu sem hefur upplifað hörmungar stríðsins. Hún hefur þegið áfallahjálp og fræðslu Biblíufélagins og deildi þar sögu sinni um ofbeldi, missi, þjáningu og mikla erfiðleika.

Flestir í Suður- Súdan hafa svipaðar sögur að segja. Milljónir manna hafa látið lífið í þau 22 ár sem borgarastyrjöld hefur geisað í Suður-Súdan. Biblíufélagið fékk styrk frá Sameinuðu Biblíufélögunum og sérstaklega Biblíufélaginu í Bandaríkjunum til að setja upp miðstöðvar víðsvegar um landið til þess að hjálpa fólkinu. Fjöldi fólks hafa á ári hverju þegið áfallahjálp og fengið hjálp til að takast á við sálræn, líkamleg og andleg sár sem komið hafa í kjölfar áfalla sem það hefur orðið fyrir. Það var mikil áskorun fyrir Biblíufélagið að hefja þetta starf þar sem hættur leynast víða á vegum úti vegna stríðsins og vegna mikilla rigninga sem lokað hafa vegum víðs vegar um landið. Þrátt fyrir erfiðar kringumstæður hefur starfið gengið vel og breytt miklu.

Wilson Phillip er einn þeirra einstaklinga sem átti við erfiðleika að stríða eftir að hafa misst son sinn árið 2012 og upplifað miklar hörmungar í stríðinu.

,, Hugur minn var fullur af reiði og hatri”segir Wilson. ,, Það eina sem ég gat hugsað um var að hefna dauða sonar míns. En áfallahjálp Biblíufélagsins og sú fræðsla sem ég fékk þar hjálpaði mér að takast á við þessar tilfinningar og sjá hlutina í öðru samhengi. Ég leyfði mér að syrgja og deila tilfinningum mínum með öðrum í stað þess að loka þær allar innra með mér”

,,Ég hafði ekki fundið frið innra með mér síðan ég horfði upp á föður minn myrða móður mína fyrir ári síðan” segir Salome Khamisa ,,Hugur minn hefur verið fullur reiði og sú byrði hefur hvílt á mér. Áfallateymi Biblíufélagsins hefur hjálpað mér að horfast í augu við þessa reiði mína og ég hef lært að fyrirgefa föður mínum og opna hjarta mitt fyrir Guði.

Biðjum fyrir áfallahjálp Biblíufélagsins í Suður –Súdan og vinnustofum þeirra.